Miklu hærra hlutfall þjóðarinnar er andvígt sjókvíaeldi á laxi en er hlynnt. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi nú í maí en þar sögðust rúmlega tvisvar sinnum fleiri aðspurðra vera andvíg sjókvíaeldi en hlynnt, eða 43,3% gegn 20,7%.

Þessi afgerandi andstaða kemur ekki á óvart. Sjókvíaeldi á laxi er ekki aðeins óumhverfisvænn iðnaður og skaðlegur fyrir lífríkið heldur er meðferðin á eldisdýrunum fyrir neðan allar hellur.

Dýrahald þar sem um það bil eitt af hverjum fimm dýrum deyr vegna þess aðbúnaðar sem þau búa við er algjörlega ólíðandi aðferð við matvælaframleiðslu. Þetta er staðan í sjókvíaeldi og mun ekki beytast. Sjókvíaeldisfyrirtækin hafa um árabil gert ráð fyrir þessum gríðarlega dauða eldisdýranna í bókhaldi sínu, eins og stjórnarformaður Arnarlax sagði frá í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum.

Skv. Maskínu eru færri hlynntir sjókvíaeldi en landeldi, og hvergi á landinu mælist meirihluti fyrir laxeldi í sjókvíum:

„Talsverður munur kemur fram á viðhorfi annars vegar til laxeldis á landi og hins vegar laxeldis í sjókvíum þar sem mun færri segjast hlynntir eldi í sjó. Það eru rétt innan við 21% sem segjast hlynnt laxeldi í sjó sem er örlítið færri en fyrri mæling frá árinu 2021 sýnir. Á hinn bóginn fækkar einnig þeim sem eru andvígir eða um 5 prósentustig, þannig stækkar hópur þeirra sem eru beggja blands. Fleiri karlar en konur eru hlynntir laxeldi í sjó eða 28-29% karla en mun færri konur eru sömu skoðunar eða 12%. Mestur er stuðningurinn við laxeldi í sjó meðal íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum en þar segjast rúmlega 40% íbúa vera hlynnt slíku eldi. Til samanburðar þá eru innan við 20% Reykvíkinga hlynnt laxeldi í sjó og má því greina talsverður munur er á viðhorfi fólks eftir búsetu.“