„Það er mikill áhugi á því að ala lax á landi. Verð á laxi hefur verið mjög hátt og eftirspurnin eykst stöðugt,“ segir Jónas Jónasson, forstjóri Stofnfisks í þessari frétt sem birtist í Morgunblaðinu. Bendir Jónas á með því að framleiða laxinn á staðnum sparist meðal annars flutningskostnaður.
Í fréttinni kemur líka fram að Stofnfiskur selur hrogn til nýrrar landeldisstöðvar í Miami í Bandaríkjunum og að stór landeldisverkefni eru farin af stað eða í undirbúningi í Póllandi, Sviss, Danmörku, Kína og Dubai. Þá segir að hrognin sem Stofnfiskur framleiðir hér á landi geti í fyllingu tímast orðið að 500 þúsund tonnum af laxi:
„Það er mikill áhugi á því að ala lax á landi. Verð á laxi hefur verið mjög hátt og eftirspurnin eykst stöðugt. Menn hafa verið að skoða þessa möguleika, sérstaklega þar sem langt er til framleiðslulandanna,“ segir Jónas Jónasson, forstjóri Stofnfisks sem frá árinu 2015 hefur verið hluti af Benchmark Genetics, alþjóðlegu rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki á sviði fiskeldis. Jónas er jafnframt framleiðslustjóri Benchmark-samstæðunnar.
„Við erum að taka þátt í þessum verkefnum víða um heim. Við erum með heilbrigðan stofn og höfum leyfi til innflutnings hrogna í flestum löndum heims,“ segir Jónas. Verið er að byggja upp áframeldi víða, til dæmis í Bandaríkjunum, Póllandi, Sviss, Danmörku, Kína og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Fyrsti áfangi stöðvar í Miami er 9 þúsund tonn en áform eru um allt að 90 þúsund tonna framleiðslu. Stofnfiskur hefur selt mikið af laxahrognum þangað í eitt ár. Þau eru enn á seiðastigi og gert ráð fyrir að slátrun hefjist á næsta ári. Einnig selur fyrirtækið mikið til annarra fyrirtækja sem eru að byggja upp landeldi en þær stöðvar eru margar að stefna að 5-10 þúsund tonna framleiðslu. Til samanburðar má geta þess að hér á landi voru framleidd rúm 13 þúsund tonn í fyrra.