Þetta getur ekki verið skýrara.

63,5 prósent landsmanna eru neikvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Gallup. Aðeins fjórtán prósent svarenda eða meira en fjórum sinnum færri segjast vera jákvæðir gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum.

Öll áform um að láta þennan iðnað fá svigrúm til að halda sinni skaðlegu starfsemi áfram er aðför að náttúru Íslands og villtum laxi. Og það gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar!

Andstaðan er afgerandi í öllum hópum. Miklu fleiri eru neikvæðir í garð sjókvíaeldis þegar svörin eru greind eftir:

  • Aldri
  • Kyni
  • Kjördæmum
  • Stuðningi við stjórnmálaflokka

Hvergi er hærra hlutfall neikvæðra gagnvart sjókvíaeldi en meðal stuðningsfólks VG, eða 78 prósent.

Hér er hægt að skoða þessa skiptingu. Rúmlega fjórum sinnum fleiri neikvæðir en jákvæðir í garð sjókvíaeldis.


Vísir fjallaði um niðurstöður könnunarinnar:

Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF) fékk Gallup til að vinna könnunina þar sem tæplega 1700 manns víðs vegar um landið voru spurðir í netkönnun.

Niðurstöðurnar koma í kjölfar fregna af umhverfisslysi hjá Arctic Fish í Patreksfirði þar sem áætlað er að um 3500 frjóir sex til sjö kílóa eldislaxar hafi sloppið út um göt á sjókvínni. NASF telur að umfang umhverfisslysins hafi ekki orðið að fullu ljóst þegar spurt var.

„Og sér reyndar ekki enn fyrir endann á þessu stærsta mengunarslysi Íslandssögunnar.“

Einnig var spurt hve jákvætt eða neikvætt fólk væri gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum en staðan hefur verið tekin á viðhorfi landsmanna þrisvar áður, í febrúar 2021, ágúst 2021 og síðast í febrúar 2023.

63,5% landsmanna kveðast nú neikvæðir í garð sjókvíaeldis. Í febrúar 2021 voru 33,2% neikvæð í garð sjókvíaeldis, í ágúst 2021 voru 55,6% neikvæð og í febrúar síðastliðinn voru 61,4% neikvæð. Einungis 14% landsmanna eru jákvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum. Ef aðeins er litið til landsbyggðarinnar eru í dag 56% neikvæð gagnvart laxeldi í opnum sjókvíum.

Þá var einnig spurt um þrjár fullyrðingar:

  • Hvort banna ætti laxeldi í opnu sjókvíum við Ísland
  • Hvort leyfa ætti áfram laxeldi í opnum sjókvíum við Ísland
  • Hvort hvorug fullyrðingin kæmist nálægt viðhorfi viðkomandi

Síðast var spurt í febrúar síðastliðinn en þá voru 52,4% af þeim sem tóku afstöðu á því að banna ætti laxeldi í opnum sjókvíum við Ísland. Fylgi við þá skoðun hefur aukist í 57,5%. Fækkað hefur lítillega í hópi þeirra sem vilja leyfa laxeldi í opnum sjókvíum áfram úr 22,8% í 20,8%.