Eins og lesendur þessarar síðu vita höfum við á undanförnum árum margsinnis fjallað ömurlegan aðbúnað eldislaxanna í sjókvíunum. Eftirlitsstofnanir vita fullvel hvernig þetta ástand er.

Fyrir tveimur árum reyndum við ítrekað að fá svör frá fulltrúum Matvælastofnunar (MAST) um hvað stofnunin telur vera „óeðlileg afföll“ einsog það er orðað í lagatextanum um fiskeldi – við hvaða tölur eða prósentur af fjölda eldisdýra væri miðað.

Starfsfólk MAST reyndist ekki tilbúið að veita þær upplýsingar.

Hitt er löngu þekkt að sjókvíaeldisfyrirtækin sjálf gera ráð fyrir að 20% af eldislöxunum þola ekki vistina í sjókvíunum.

Miðað við þann fjölda laxa sem er í sjókvíum við Ísland þýðir þetta hlutfall að um 2,5 milljónir eldislaxa drepast í kvíum á þessu ári.

Þetta er óendanlega dapurlegt. Enn sorglegra er að starfsfólk eftirlitsstofnana, dýralæknarnir og aðrir sem þar vinna, veit að svona er þessi iðnaður.

Og fólkið sem situr á Alþingi, og setur lögin sem sjókvíaeldið starfar eftir hér á landi, á að vita það líka.

Um síðustu jól sendum við hjá IWF öllum alþingismönnum bókina Undir yfirborðinu, eftir norsku blaðakonuna Kjersti Sandvik sem Magnús Þór Hafsteinsson þýddi. Í henni er einmitt kafli um þessa ömurlegu hlið sjókvíaeldisins.

Í tilefni þeirra hræðilegu mynda sem Veiga Grétarsdóttir tók í sjókvíum Arnarlax og Arctic Sea Farm setti Magnús inn upprifjun á þessum kafla í athugasemd við eina færslu hér á síðunni. Við endurbirtum hann hér:

„Höfundur bókarinar „Undir yfirborðinu – Norska laxeldisævintýrið, lærdómur fyrir Íslendinga“ sem ég þýddi og kom út hér á landi í fyrra, skrifar eftirfarandi á bls. 349-350 í íslensku útgáfunni: „Um 20 prósent af öllum fiski, sem er settur út í sjókvíar, drepst áður en hann nær sláturstærð. Greinin hefur í mörg ár lifað við þessi afföll.

Vera má að góð hagnaðarvon í þeim fiski, sem þraukar lífsferil sinn fram til slátrunar, valdi því að menn geti kært sig kollótta fjárhagslega séð þó að fimmtungur búsmalans, sem þeir fóðri, leggi upp laupana áður en hægt er að gera úr honum verðmæti. Það er ekki einungis smáfiskurinn sem drepst, stærri laxar drepast líka í auknum mæli. En þó að þetta skipti ef til vill ekki miklu í atvinnuvegi sem skilað getur ofsagróða, segir það sig sjálft að það er ekki jákvætt út frá sjónarmiðum dýravelferðar að svo mikið af fiski drepist.

Vera má að menn slævi samvisku sína með því að kenna laxinum sjálfum um þetta. Hann er jú svo svipbrigðalaus og augu hans svo köld. Fiskurinn hefur takmarkaða möguleika til að sýna hvort honum líði vel eða illa allt þar til hann syndir við þröskuld dauðans. Hann getur ekki vakið samúð manna eins og landdýrin með sín stóru björtu augu sem lýsa tilfinningum.

Sjálf efast ég um að nokkur bóndi fengi að halda áfram með dýr sín og búrekstur, og í ofanálag leyfi til að færa út kvíarnar, ef sá hinn sami yrði uppvís að því að fimmta hvert húsdýr veslaðist upp og dræpist á básum, í stíum og búrum á býli hans.“

Sjókvíaeldi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.