Eins og kom fram á Vísi 30. desember og á þessari síðu drapst gríðarlega mikið af eldislaxaseiðum þegar Kaldvík setti þau í sjókvíar í Fáskrúðsfirði í nóvember.

Í nýrri frétt fréttastofu RÚV kemur fram að Kaldvík lét sér ekki segjast heldur setti líka út seiði í desember sem drápust einnig í stórum stíl.

Matvælastofnun rannsakar nú dauða seiðanna. Meðal spurninga sem Kaldvík þarf að svara er af hverju farið var í annan flutning á seiðum við þessar aðstæður, en sjór var óvenju kaldur á Austfjörðum í nóvember og desember.

Okkar svar er að fyrirtækin hegða sér svona vegna þess að þau komast upp með það.

Lög um fiskeldi hafa hingað til verið algjörlega sniðin að hagsmunum fyrirtækjanna án nokkurs tillits til velferðar eldisdýranna. Þannig var það líka í lagareldisfrumvarpinu sem tókst að stöðva síðastliðið vor.

Þetta verður að breytast. Fyrirtæki sem sýna velferð eldisdýra sinna slíka óvirðingu eiga ekki að fá að starfa.

Frétt RÚV:

Matvælastofnun rannsakar hvers vegna rúmlega 600 þúsund laxaseiði drápust í Fáskrúðsfirði fljótlega eftir að þeim var sleppt í sjókvíar. Sjórinn þar hefur verið óvenju kaldur og MAST krefur Kaldvík um skýringar á því að seiði hafi verið flutt við slíkar aðstæður. …

Karl Steinar Óskarsson, stýrir fiskeldisdeild MAST, og segir seiðin hafa verið flutt bæði frá Rifósi og Ölfusi og áberandi sé hve mikið af seiðum úr Ölfusi hafi drepist. Seiði hafi verið send til Noregs í krufningu en ekki hafi fundist afgerandi merki um sjúkdóma. Mögulega hafi óvenju kaldur sjór eða vont verður við flutning haft áhrif. Einnig gætu seiðin hafa drepist úr gasbóluveiki sem sé þekkt í seiðum úr Ölfusi. Hana má rekja til yfirmettunar súrefnis í vatninu sem kemur á yfirþrýstingi úr borholum.

Sjórinn aðeins 2,7 gráðu heitur

Hann segir að sjórinn í Fáskrúðsfirði hafi kólnað skarpt í nóvember og farið úr rúmum 5 gráðum niður í 2,7. Mikið af seiðum hafi drepist eftir flutning í byrjun nóvember og MAST hafi óskað eftir skýringum á því af hverju farið var í annan flutning við þessar aðstæður í lok nóvember og aftur í byrjun desember. …

Hjá Kaldvík fást þau svör að nokkrir þættir hafi valdið því að fresta þurfti því að setja seiðin út í kvíarnar. Ólöf Helga Jónsdóttir er mannauðsstjóri og talsmaður Kaldvíkur.

„Við lok sumars var tekin ákvörðun um að fresta útsetningu seiða til að vernda fiskistofninn gegn sníkjudýrinu parvicapsula. Að fenginni reynslu er mest af parvicapsula í ágúst og byrjun september og því ákváðum við að fresta útsetningu fram yfir það tímabil. En vegna ófyrirsjáanlegra veðurofsa þá tafðist útsetningin enn frekar og í kjölfarið hefur hitastig í sjó fyrir austan verið sögulega lágt og aðstæður ekki nægilega hagstæðar. Þannig jukust afföllin á annars góðu ári. Við höfum vissulega umbreytt ferlum til að koma í veg fyrir að sömu eða sambærilega aðstæður myndist í framtíðinni. Velferð dýra og náttúrunnar eru alltaf í forgangi hjá fyrirtækinu,“ segir Ólöf Helga.