Gríðarlegur fiskidauði í sjókvíaeldiskvíum vegna ýmissa sjúkdóma, laxalúsar og vetrarsára er viðvarandi vandamál í þessum iðnaði um allan heim. Vitað er að fiskur hefur drepist í sjókvíaeldi hér við land í stórum stíl, bæði fyrir vestan og austan.
MAST birti á sínum fréttir af þessum hremmingum en hætti því skyndilega í fyrra. Engin ástæða er þó til að ætla að fiskur sé hættur að drepast í sjókvíum hér við land. Fyrirtækin gera beinlínis ráð fyrir í rekstraráætlunum sínum að um 20 prósent eldisdýranna lifi ekki af þær aðstæður sem þeim erum búnar í sjókvíunum.
Hvað er þá á ferðinni? Af hverju hefur MAST hætt að segja frá því hver staðan er? Í lögum og reglugerðum um fiskeldi er kveðið á um skyldu MAST til að upplýsa almenning um „óeðlileg afföll eldisdýra“, en hins vegar kemur ekkert fram um hvað stjórnvöld telja vera eðlileg afföll.
Þegar IWF óskaði eftir því að fá upplýsingar frá MAST um hver viðmiðin eru, þá bárust þessi svör í tölvupósti frá fulltrúa yfirdýralæknis stofnunarinnar:
„Hvað varðar kröfur um viðmið fyrir „óeðlileg afföll“, þá eru ekki til nein slík föst viðmið. Hvenær afföll teljast vera óeðlileg er alltaf háð faglegu mati á aðstæðum, tíma og ástæðum affalla hverju sinni.“
Þetta eru að sjálfsögðu ekki ásættanleg svör. Í ársskýrslu Norska dýralæknastofnunarinnar 2018 er svartur kafli um stöðu heilbrigðismála í fiskeldi í Noregi. Þar kemur meðal annars fram að ekkert gengur að ná tökum á gríðarlegum fiskidauða í laxeldissjókvíum við landið. Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, sagði árið 2018 að brýnasta verkefni norsks laxeldis vera að stemma stigu við laxadauða, ástandið væri óásættanlegt. Féllu þau orð í kjölfar upplýsinga um að 53 milljónir laxa hefðu drepist í sjókvíum við landið árið 2017, sem var svipað magn og 2016 og reyndist líka vera talan fyrir 2018.
Um 44 laxar drepast í sjókvíunum fyrir hvert tonn sem framleitt er í Noregi. Hér á landi er gert ráð fyrir að árleg framleiðsla í sjókvíum geti mest orðið 71 þúsund tonn, verði heimildir miðað við núverandi áhættumat Hafrannsóknastofnunar fullnýttar. Það þýðir að um 3,1 milljón eldislaxa muni drepast hér á hverju ári, sé miðað við reynslu Norðmanna.
Telja stjórnvöld það eðlileg eða óeðlileg afföll?