„Eins og staðan er í dag er ég ein í þessu starfi sem er bagalegt fyrir stofnun með alla þessa ábyrgð,“ segir Erna Karen Óskarsdóttir, sem er fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun í góðri fréttaskýringu Fréttablaðsins í dag.
Þetta er makalaus staða. Um 60 aðilar hafi rekstrarleyfi til fiskeldis en einungis einn starfsmaður vinnur við eftirlit með þessari starfsemi. Það eftirlit felst svo nánast eingöngu í að tað taka við upplýsingum frá fyrirtækjunum sjálfum.
Í frétt Fréttablaðsins segir m.a.:
„Svo virðist sem hvorki Matvælastofnun né fyrirtækið Fjarðalax, dótturfyrirtæki Arnarlax, viti hversu mikið af laxi slapp úr kví fyrirtækisins í byrjun júlí þegar göt uppgötvuðust á einni kvínni. Fyrirtækið heldur fram að aðeins 300 fiskar hafi sloppið. Aftur á móti veit enginn um afdrif hátt í 5.000 laxa.
„Fyrirtækið áætlar að það séu um 300 fiskar sem hafa sloppið. Okkur þykja óvissuþættirnir vera það stórir að við getum ekki áætlað um fjölda fiska sem farið hafa úr kvínni. Hvort þau séu hundruð eða þúsund,“ segir Erna Karen Óskarsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun. …
Erna telur Matvælastofnun ekki í stakk búna til að sinna skyldum sínum um eftirlit með fiskeldi. Efla þurfi stofnunina. Um 60 aðilar hafi rekstrarleyfi til fiskeldis en einungis einn starfsmaður vinni við eftirlit.“