Ástandið í Dýrafirði er matraðarkennt. Stór hluti af þeim eldislaxi sem Arctic Fish er þar með í netapokum hefur drepist á undanförnum dögum og vikum. Ekki sér fyrir endann á þessu ástandi. Sjór er enn mjög kaldur og lægðir halda áfram að ganga yfir fjörðinn þar sem mikið er af illa höldum fiski í sjókvíum.
Sjókvíaeldi á laxi er grimmdarlegur verksmiðjubúskapur. Munið að spyrja hvaðan laxinn á matseðlinum og í búðinni kemur.
Segjum nei við sjókvíaeldi. Það er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu.
Skv. umfjöllun Stundarinnar um þetta ástand:
„Á milli 300 og 400 þúsund eldislaxar í sláturstærð hafa drepist í sjókvíum ísfirska laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Dýrafirði síðustu vikurnar. Um er að ræða 1500 til 2000 tonn af eldislaxi sem hefur drepist og ónýst, eða allt að tæplega fjórðungi af ársframleiðslu Arctic Fish. Fiskurinn var í sláturstærð, á milli 5 og 7 kíló.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá eiganda Arctic Fish, norska laxeldisfyrirtækinu Norway Royal Salmon, til norsku kauphallarinnar. Norway Royal Salmon er skráð á norska hlutabréfamarkaðinn og þarf félagið að greina frá slíkum skakkaföllum í rekstri félaga í samstæðunni. …
Því er um að ræða miklu meira magn af dauðum eldislaxi en Arctic Fish greindi frá upphaflega á heimasíðu sinni en sú tala var 3 prósent af framleiðslunni. Laxadauðinn er afleiðing af veðrinu sem geisað hefur á Vestfjörðum.“