Hörmungarnar í sjókvíunum hér við land taka engan enda. Þetta er viðvarandi ástand í þessum ömurlega iðnaði þar sem velferð eldisdýranna er látin mæta afgangi.

Fyrir innan við 20 árum þurrkuðu marglyttur út sjókvíaeldi sem Samherji var með í Mjóafirði.

Þetta var allt þekkt en samt var farið með sjókvíar aftur ofan í firðina fyrir austan.

Skv. frétt RÚV:

„Óvenjumikið af eldislaxi hefur drepist í Reyðarfirði undanfarið. Kajakræðari sem myndaði hundruð dauðra laxa telur eldið ekki eiga heima í sjó en laxeldismenn segja eðlilegar skýringar á dauðanum.

Veiga Grétarsdóttir kajakræðari hefur undanfarið myndað eldiskvíar í Reyðarfirði og á myndum sem hún tók fyrir nokkrum dögum má sjá talsvert af dauðum laxi fljóta í kvíunum. „Þetta segir mér bara að þessi iðnaður á ekkert heima í sjó eins og þeir vilja meina. Að þetta sé ekkert svona sjálfbært um umhverfisvænt eins og af er látið. Þá er þetta bara tifandi tímasprengja. Þetta lifir ekkert af í sjó. Þetta eru fleiri hundruð fiska sem eru dauðir þarna. Rotnandi lík. Orðnir roðlausir, ógeðslegir, hauslausir og eftir því sem ég skoða meira því meiri viðbjóð sé ég,“ segir Veiga en hún hefur einnig tekið myndir af illa leiknum eldislaxi á Vestfjörðum.“