Ríkisendurskoðandi gaf stjórnsýslunni í kringum sjókvíaeldi á laxi fullkomna falleinkunn í ítarlegri skýrslu i fyrra og skoðanakannanir sýna að þjóðin er mjög andsnúin þessum skaðlega iðnaði

Ekkert breytist þó. Kerfið mallar áfram í einkennilegri meðvirkni og stjórnmálafólkið líka. Sérstaklega sá flokkur sem kennir sig við græn gildi og þykist vera umhverfisverndarflokkur

Hvernig stendur á þessu?

Í umfjöllun Vísis segir m.a.:

Lögmaður landeiganda í Ísafjarðardjúpi, sem barist hefur gegn sjókvíaeldi á svæðinu, skorar á ríkisstjórn að grípa til aðgerða vegna leyfisveitingar Matvælastofnunar til Arnarlax. Það sé til marks um slæma stjórnsýslu að stofnunin veiti fyrirtækinu rekstrarleyfi til fiskeldis í Djúpinu þrátt fyrir mótmæli Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar

„Þarna er stofnun, sem á að sjá um að veita svona rekstrarleyfi, að kalla eftir umsögnum frá öryggisstofnunum á borð við Landhelgisgæsluna og Samgöngustofu. Fær til baka afdráttarlausar og fullkomlega neikvæðar umsagnir: Það má ekki veita leyfi, til dæmis í Óshlíð vegna þess að það stefnir öryggi siglinga í Ísafjarðardjúpi í verulega hættu. Hvað gerir MAST? Jú, veitir leyfið,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður landeiganda á Sandeyri á Snæfellsströnd í Ísafjarðardjúpi.

Tilkynnt var um það á föstudag að MAST hafi veitt Arnarlaxi ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi – Drangsvík, Eyjahlíð og Óshlíð.

Í umsögn Samgöngustofu um rekstrarleyfið segir að áhættumat Landhelgisgæslu Íslands, Samgöngustofu og Vegagerðarinnar hafi metið svo að ekki væri ásættanlegt að leyfa fiskeldi við Eyjahlíð og Óshlíði með tilliti til siglingaöryggis.

„Þetta er svo gott dæmi um það hvað við erum með hræðilega stjórnsýslu í þessum málaflokki og hvernig það er þjónkað endalaust við þessi moldríku fyrirtæki á kostnað hagsmuna, sem þessar stofnanir eiga að gæta. Þær eiga að gæta almannaöryggis, þær eiga að gæta náttúruverndar og svo framvegis. Þessum hagsmunum er alltaf fórnað til að koma til móts við fyrirtækin.“ …

Hún veltir fyrir sér hvers vegna MAST gefi út leyfin þrátt fyrir að aldrei verði heimilt að setja mannvirki á þessa staði.

„Hvað munu fyrirtækin gera þá? Jú, krefjast einhvers konar bóta eða fá einhver önnur leyfi í staðin. Þetta er galin stjórnsýsla og mjög ámælisverð.“