Jón Kaldal svarar í dag pistli sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fékk birtan í viðskiptablaði Morgunblaðsins í síðustu viku.
Fleirum en okkur hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum finnst undarlegt að sjá hversu hatrammlega Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi beita sér í þágu sjókvíaeldisfyrirtækjanna, sem eru að meirihluta í norskri eigu og vörur þeirra í beinni samkeppni við íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum.
Vísindafólk hefur beinlínis varað við því að uppeldisstöðvum íslenska þorskstofnsins kunni að vera hætta búin vegna mengunar frá sjókvíaeldi og annarra skaðlegra áhrifa eldisins á vistkerfi fjarðanna okkar.
Vernd íslenskrar náttúru og lífríkis ætti að vera í forgangi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Allt aðrir hagsmunir eru í húfi fyrir norsku sjókvíaeldisrisana sem senda reikninginn fyrir sinni starfsemi beint til umhverfisins og villtu laxastofnana því þeir tíma ekki að borga hann sjálfir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu:
Mögulega hefði hún ekki getað verið verri tímasetningin á pistli framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS ) sem birtist í viðskiptakálfi Morgunblaðsins í síðustu viku. Þar reyndi framkvæmdastjórinn, Heiðrún Lind Magnúsdóttir, að gera sem minnst úr skaðlegum áhrifum sjókvíaeldis á villta íslenska laxastofna. Vildi hún frekar beina sjónum að meintri ofveiði stangveiðifólks. Sagði hún meðal annars: „Alinn fiskur, sem örugglega má rekja til íslensks eldis, hefur helst fundist í ám sem hafa aldrei verið skilgreindar sem laxveiðiár og fóstra ekki sjálfbæra laxastofna.“
Á þeim örfáu dögum sem eru liðnir frá birtingu pistils Heiðrúnar hafa einmitt eldislaxar verið að birtast í skilgreindum „laxveiðiám“ á Vestfjörðum og líka slíkum ám sem eru langt frá eldissvæðunum fyrir vestan, þar á meðal í Dölunum og í Hópinu í Víðidal.
Skapandi meðferð á staðreyndum
Meðferð Heiðrúnar á tölum og staðreyndum var reyndar með óvenju skapandi hætti í þessum pistli, svo notað sé kurteisislegt orðalag. Meðal annars er gott að hafa í huga að hugtakið „laxveiðiá“ er lögfræðilegur bastarður. Höfundar þess (og þau sem nota það) leyfa sér að líta alfarið fram hjá ám þar sem villtir íslenskir laxastofnar hafa átt sín óðul í þúsundir ára, löngu áður en Alþingi ákvað að náttúruvernd ætti aðeins að gilda um þær ár sem fólk hefur stofnað um veiðifélög. Eldislax hefur verið að finnast í þeim vatnsföllum mörg undanfarin ár og miklu víðar en mætti skilja af lestri greinar Heiðrúnar.Í júlí birti Hafrannsóknastofnun sláandi rannsóknarskýrslu sem heitir „Erfðablöndun villts íslensks lax og eldislax af norskum uppruna“. Þar kemur fram að blendingar eldislax og villts lax hafa fundist „í allt að 250 km fjarlægð“ frá sjókvíaeldissvæðunum.
Stofnunin vekur sérstaka athygli á að rannsóknarskýrslan byggir á sýnum úr fiskum sem rekja má til hrygningar á árunum 2014 til 2018 en á því tímabili var framleiðslumagn í laxeldi í sjókvíum að meðaltali 6.900 tonn.
Framleiðslumagn í sjó hefur undanfarin ár verið um fimm til sex sinnum meira og því ljóst að erfðablöndun er nú þegar orðin miklu meiri. Þetta er grafalvarleg staða því genablöndun við eldislax slítur í sundur tíu þúsund ára þróunarsögu villtu stofnanna og dregur stórlega úr getu þeirra til að lifa af í náttúrunni.
…og misskilningur á veiðitölum
Væntanlega má svo skrifa matreiðslu Heiðrúnar á veiðitölum í samhengi við stofnstærð íslenska villta laxins á þekkingarleysi. Við þá eldamennsku gerir hún þau mistök að telja lax úr svokölluðum hafbeitarám með í veiðitölum yfir lax sem stangveiðifólk drepur, en sá fiskur er hins vegar ekki talinn með í stofnstærð villta íslenska laxins. Hafbeitarár eru ár þar sem lax á sér ekki náttúruleg heimkynni heldur er sleppt í þær íslenskum villtum laxaseiðum og þau síðan veidd þegar þau snúa aftur af fæðuslóð í hafinu sem fullorðnir fiskar.Í flestum náttúrulegum laxveiðiám er fluguveiði nú allsráðandi. Nýting stofnanna er hófleg og 50 til 90 prósent veiddra laxa gefið líf. Samkvæmt fyrirmælum Veiðimálastofnunar er skylduslepping á öllum laxi yfir 70 cm í öllum helstu ám landsins. Það er virt svotil án undantekninga.
Í náttúrulegu íslensku ánum sleppir stangveiðifólk um það bil tveimur löxum á móti hverjum þeim sem eru teknir á land. Þannig verður nægur lax eftir í ánum í lok veiðitíma til að styðja við góða hrygningu að hausti. Sjálfbærni stofnanna er því tryggð.
SFS vegur að þorskstofninum
Fleirum en okkur hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum finnst undarlegt að sjá hversu hatrammlega Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi beita sér í þágu sjókvíaeldisfyrirtækjanna. Í fyrsta lagi halda fyrirtæki sem eru að meirihluta í norskri eign á fjórtán af sextán leyfum fyrir sjókvíaeldi við Ísland. Þar er framleidd vara sem er í beinni samkeppni við villtar íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum.Í öðru lagi hefur vísindafólk beinlínis varað við því að uppeldisstöðvum íslenska þorskstofnsins kunni að vera hætta búin vegna mengunar frá sjókvíaeldi og annarra skaðlegra áhrifa eldisins á vistkerfi fjarðanna okkar.
Vernd íslenskrar náttúru og lífríkis ætti að vera í forgangi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Allt aðrir hagsmunir eru í húfi fyrir norsku sjókvíaeldisrisana sem senda reikninginn fyrir sinni starfsemi beint til umhverfisins og villtu laxastofnana því þeir tíma ekki að borga hann sjálfir.