„Meira en hálft ár er nú liðið frá því laxeldisfyrirtækið Arnarlax hóf meðvitað að brjóta gegn skilyrðum starfsleyfis fyrir sjókvíaeldi sem það starfrækir í Arnarfirði. Þær stofnanir sem eiga að hafa eftirlit með starfseminni vita af brotinu en aðhafast þó ekki af ástæðum sem ekki hafa verið skýrðar,“ segir í grein sem Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, skrifar í Fréttiblaðið í dag og birtist líka á Vísi.is.
„Umhverfisstofnun staðfesti þann 19. júní sl. að um frávik væri að ræða og krafði Arnarlax um úrbætur. Fyrirtækið hafði þá kröfu hins vegar að engu. Þann 16. júlí boðaði Umhverfisstofnun því að það yrði áminnt. Viðbrögð Arnalax voru þá að óska eftir undanþágu til umhverfisráðuneytisins.
Síðan hefur ekkert gerst nema hvað Umhverfisstofnun sendi umsögn til ráðuneytisins í september þar sem lagst er gegn því að Arnarlax fái undanþágu.
Afar sérstakt er að Umhverfisstofnun aðhafist ekki á meðan undanþágubeiðnin er til meðhöndlunar því ekkert í lögum um mat á umhverfisáhrifum segir að ráðuneytinu sé heimilt að veita hana.
Vinnubrögð ráðuneytisins eru að sama skapi illskiljanleg en undanþágubeiðnin hefur nú legið þar óafgreidd í fimm mánuði. Á meðan geldur umhverfið fyrir.
Furðu vekur að þessi starfsemi virði ekki þau skilyrði sem henni eru sett í starfsleyfi. Enn furðulegra er að Umhverfisstofnun og ráðuneyti málaflokksins skuli ekki tryggja að þau skilyrði séu virt.“
Við hjá IWF tökum undir þessi orð Árna.