„Forstöðumaður hjá Matvælastofnun telur réttast að banna eldisfyrirækjum að setja laxaseiði í kvíar þegar hitastig sjávar fer undir ákveðin mörk. Talið er sjókuldi hafi átt þátt í því að yfir 600 þúsund laxaseiði drápust hjá Kaldvík í Fáskrúðsfirði í nóvember og desember. Sjórinn kólnaði skarpt í nóvember og var aðeins 2,7 gráður sem er kalt fyrir seiðin.“

Þessi kafli er úr frétt RÚV og lýsir í hnotskurn af hverju þarf að stokka algjörlega upp lög og reglur um sjókvíaeldi, ólíkt því sem ætlunin var með hinu vonda lagareldisfrumvarpi, sem betur fer varð ekki að lögum síðastliðið vor.

Það þarf að hafa vit fyrir stjórnendum sjókvíaeldisfyrirtækjanna á öllum mögulegum sviðum til að koma í veg fyrir það þeir skaði umhverfið, lífríkið og eldisdýrin, sem þeir eiga þó sjálfir.

Frétt RÚV:

Forstöðumaður hjá Matvælastofnun telur réttast að banna eldisfyrirækjum að setja laxaseiði í kvíar þegar hitastig sjávar fer undir ákveðin mörk. …

„Þau þola það illa og koma úr sjó í seiðastöðvunum þar sem er kannski 7-8 gráðu hiti. Og þessi munur er bara of mikill. Þess vegna höfum við viljað helst að það yrði sett skýrari fyrirmæli í lög um það hvenær mætti setja seiði í sjó og við viljum helst að það sé skoðað að það sé bannað ef hitastig er undir 5 gráðum,“ segir Karl Steinar Óskarsson. Hann stýrir fiskeldisdeild MAST sem rannsakar seiðadauðann í Fáskrúðsfirði. …

„Að okkar mati ættu ekki að vera sett út seiði seint í október eða hvað þá eftir október. Reynslan hefur sýnt það að það hefur ekki gefist vel. En við teljum að það sé mjög gerlegt fyrir fyrirtækin að setja öll seiði út í þessum glugga sem er vissulega mun styttri heldur en í Noregi eða í Færeyjum. En aðstæður á Íslandi eru bara þannig að þær eru töluvert erfiðari hvað þetta varðar,“ segir Karl. …

Karl Steinar segir að þjónustudýralæknar eldisfyrirtækja meti hvort óhætt sé að setja út seiðin og Matvælastofnun gæti fræðilega gripið inni í.

„En ef þjónustudýralæknar hafa gefið það út að seiðin séu fær til þess að fara út í sjó þá erum við með frekar slæm rök til að banna það. Að okkar máti þá ætti bara að vera hreinlega miklu skýrara í lögum að þetta væri sem sagt bannað að setja út fisk í sjó þegar hitinn er undir 5 gráðum. Þá þyrftum við ekkert að vera að hafa einhver sérstök afskipti af því hvenær menn eru að setja út seiði. Ábyrgðin er fyrirtækjanna alfarið,“ segir Karl Steinar Óskarsson, forstöðumaður fiskeldisdeildar MAST.