Í viðtali við Stundina árið 2018 sagði Kjartan Ólafsson, þáverandi stjórnarformaður Arnarlax að reiknað væri „með allt að 20 prósent afföllum í áætlunum fyrirtækisins“.
Var hann þar að vísa til hversu margir eldislaxar væri gert ráð fyrir að dræpast á hverju ári í sjókvíum Arnarlax. Þetta er sú prósenta sem almennt er stuðst við í þessum grimmilega iðnaði.
Í umræðum í athugasemdakerfi okkar í þessari viku benti Emil Ólafur Ragnarsson á að þegar rætt er um dauða eldisdýra í sjókvíunum væri rétttara að horfa til þess að eldislaxar eru hafðir í kvíunum í allt að tvö ár.
Þetta þýðir með öðrum orðum að sjókvíaeldisfyrirtækin gera ráð fyrir í viðskiptaáætlunum sínum að af þeim eldislöxum sem þau setja út í kvíarnar muni alls 40 prósent þeirra drepast á þeim tíma sem þeir eru hafðir í sjó. Tveir af hverjum fimm.
Þetta eru hrikalegar tölur. Ömurlegt er til þess að hugsa að viðskiptaplanið sem þessi iðnaður hvílir á snýst beinlínis um að fara illa með eldisdýrin.
Fyrirtækin vita vel hvað þarf til að minnka þennan svakalega dauða. Það er einfaldlega gert með því að fækka verulega eldislöxum í sjókvíunum og þar með í hverjum firði. Það er fjöldinn á þröngu svæði sem skapar faraldur sníkjudýra og sjúkdóma sem leiðir til dauða eldisdýranna.
Í fyrra var dauðshlutfallið í sjókvíum við Ísland 23 prósent og hækkaði verulega frá 2022, sem var fyrra ömurlega metið í þessum grimmdarlega verksmiðjubúskap. Ef þetta ár verður álíka mun nánast annar hver lax af þeim sem fyrirtækin settu í sjókvíar hafa drepist.
Þetta miskunnarleysi gagnvart lífi eldisdýranna er líka mikli sóun því laxarnir sem drepast hafa yfirleitt verið fóðraðir mánuðum saman eða jafnvel í um tvö ár, því reglulega drepst mikið af laxi sem er kominn í sláturstærð.
Myndefnið sem hér fylgir er skjáskot af ummælum Kjartans í Stundinni og af nokkrum af þeim tveimur milljón lúsétnum og bakterísýktum eldislöxum sem Arnarlax og Arctic Fish þurftu að slátra og farga síðasta haust vegna þess að þeir áttu sér enga lífsvon.
Sjókvíaeldi á laxi er óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu. Af hverju er fyrirtækjunum leyft að fara svona með eldisdýrin?