Í meðfylgjandi grein bendir Þórólfur Matthíasson á þá afar sérstöku staðreynd að leyfi fyrir laxeldi í opnum sjókvíum kosta hér aðeins brot af því sem greitt er fyrir ný leyfi í Noregi. Þetta skýrir að stórum hluta það harða lobbí sem eigendur sjókvíeldisfyritækjanna standa fyrir og beita meðal annars fyrir sig mönnum með náin tengsl við ríkisstjórnarflokkanna. Nú þegar eru mörg dæmi um að íslenskir aðilar hafa fengi leyfi til að nýta náttúruna fyrir lágar upphæðir en hafa svo snúið sér svo við og selt hlut sinn í fyrirtækjunum, sem halda á leyfunum, til Noregs fyrir gríðarlegar upphæðir. Mjög mikil verðmæti hafa nú þegar skipt um hendur með þessum hætti.
Í greininni segir Þórólfur m.a.:
„Með hliðsjón af niðurstöðum úr uppboði sumarsins í Noregi á þarlendum kvíaeldisleyfum má ætla að verðmæti þeirrar aðstöðu sem Arctic Sea Farm og Fjarðalax vilja nýta í Patreksfirði og Tálknafirði (framleiðslugeta upp á 17.500 tonn samtals) nemi á bilinu 31 til 56 milljörðum króna. Sem er 100 til 150 sinnum hærri upphæð en greidd er til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. …
Nú þegar sjávarútvegsráðherra hefur opnað á endurskoðun stjórnsýslu sem tengist laxeldinu er eðlilegt að Alþingi taki gjaldtöku í greininni til sérstakrar skoðunar. Þar sem greinin er í uppbyggingarferli mætti hugsa sér að haga gjaldtöku hér með öðrum hætti en í Noregi. Þannig mætti horfa til aflaskiptakerfis sjómanna og ákveða að fastur hundraðshluti af sölutekjum laxeldisfyrirtækja gengi til íslensks kvíaeldissjóðs. Þegar aukin reynsla fæst af rekstri laxeldisins, bæði hvað varðar umhverfismál og aðra rekstrarþætti mætti endurskoða hvort tveggja, rekstrarleyfin og gjaldtökuna.“