Í nýrri samantekt endurskoðanda- og fyrirtækjaráðgjafarfyrirtækisins PWC um stöðu fiskeldis á Íslandi er klifað á því að laxeldi sé „ung atvinnugrein“ hér á landi.

Afar sérstakt er, svo það sé kurteisislega orðað, að sjá þessa lýsingu í greiningu á laxeldi frá fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega.

Laxeldi hefur verið stundað í marga áratugi á Íslandi. Svo lengi reyndar að greinin hefur farið í tvígang einsog hún leggur sig á höfuðið með gríðarlegum tilkostnaði fyrir sjóði og fjármálastofnanir í eigu almennings.

Um eldri hluta þessara gömlu glæfralegu viðskipta voru skrifaðar fjöldi frétta sem er auðvelt að finna á timarit. is fyrir þá sem kunna að leita þar.

Hér fylgir til dæmis mynd af opnuumfjöllun sem birtist í Pressunni í febrúar 1991. Þyngstu höggin fengu fjármálastofnanir og sjóðir í eigu almennings: Landsbankinn, Framkvæmdasjóður, Byggðastofnun, Fiskveiðisjóður og Atvinnutryggingasjóður.

Aftur hrundi þessi grein svo skömmu eftir síðustu aldamót en þá var tjónið að meirihluta hjá einkafjáfestum.

Ýmislegt annað er að athuga við samantekt PWC sem hljómar að stærstu leyti einsog keypt umfjöllun frá SFS, en er það víst ekki höfum við fengið staðfest. En látum það liggja á milli hluta að svo stöddu.