„Í grunninn getur það bara ekki verið eðlilegt að það sé að drepast 500 tonn af fiski á stuttum tíma. Ef það er eðlilegt þá hljóta menn auðvitað að fara að velta fyrir sér hvort þetta sé iðnaður sem menn geta fært rök fyrir að vera að stunda. Þetta er það gríðarlegt magn af fiski sem þarna er að drepast,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga um það skelfingarástand sem ríkir í sjókvíum hér við land.
Við skulum athuga að það er árviss viðburður þegar nálgast vor að dæla þarf upp úr sjókvíunum tugþúsundum fiska sem hafa drepist vegna vetrarsára. Það er ekki að ástæðulausu sem norska efnahagsbrotalögreglan er með sjókvíaeldisfyrirtækin þar í landi til rannsóknar vegna gruns um að þau brjóti umhverfisverndar- og dýravelferðarlög í hagnaðarskyni.
Laxadauðinn varð við Hringsdal eftir að hitastig sjávar lækkaði í Arnarfirði á Vestfjörðum vegna tíðarfars.
Sífellt er hætta á að lax sleppi úr kvíum með miklum áhrifum á íslenska laxastofninn, að sögn Jóns Helga Björnssonar, formanns Landssambands veiðifélaga. Þetta atvik staðfesti þær áhyggjur sem sambandið hefur talað um.“