Það er nokkuð ljóst að ekki eru öll kurl komin hér til grafar. Laxadauðinn í sjókvíunum er mögulega 10 sinnum meiri en fyrst var gefið upp. Framundan er svo foráttu slæmt veður á morgun og áframhaldandi hvassviðri um helgina. Þetta lítur ekki vel út.
Skv. frétt Stundarinnar:
Laxadauðinn hjá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi í Arnarfirði er að minnsta kosti fimm sinnum meiri en nefnt hefur verið opinberlega. Eins og Stundin greindi frá fyrir tveimur dögum var laxadauðinn í sjókvíunum um 100 tonn, samkvæmt því sem Gísli Jónsson, yfirmaður fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun Íslands, sagði við blaðið þá eða á milli 16 og 20 þúsund laxar.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar og mati sérfræðinga sem blaðið hefur talað við er laxadauðinn hins vegar varlega áætlaður 500 tonn eða allt að um 100 þúsund laxar en er mögulega ennþá meiri eða um 1.000 tonn, eða allt að 200 þúsund laxar. Um 4.000 tonn af eldislaxi í sláturstærð, í kringum 800 þúsund laxar, eru í kvíum Arnarlax í firðinum.