MAST var að birta tölur yfir dauða og förgun eldislaxa í sjókvíunum fyrir júní og því komnar tölur fyrir tvo fyrstu ársfjórðunga 2025.
Ástandið hefur verið hræðilegt allt þetta ár, enn verra en afleit árin þar a undan.
Alls hafa 2.855.173 eldislaxar drepist eða verið fargað vegna þess að þeir áttu sér ekki lífs von fyrstu sex mánuði ársins. Það er nánast jafn mikið og drapst allt árið 2022 í sjókvíunum þegar talan var 2.958.261.
Fjöldinn sem sjókvíaeldisfyrirtækin hafa látið drepast hjá sér er á við 41 faldan allan villta íslenska laxastofninn.
Aldrei áður hafa jafn margir eldislaxar drepist í sjókvíum við landið, hvort sem um er að ræða hlutfall af fiskum í kvíum eða heildartölu. Þetta hlýtur að kalla á sérstaka skoðun af hálfu MAST og eftir atvikum atvinnuvegaráðuneytisins.
Ástandið hefur verið slæmt á Vestfjörðum en enn þá verra á Austfjörðum. Þar er allt sjókvíaeldi starfrækt af Kaldvík, sem MAST kærði í janúar til lögreglu vegna mögulegra brota á lögum um velferð dýra síðastliðið haust.
MAST hóf aðra rannsókn á Kaldvík í febrúar í kjölfar mikils dauða eldislaxa í Berufirði vegna vetrarsára. Ástandið þar hefur verið hrikalegt í vor. Aðeins í maí drápust 5 prósent eldislaxa sem Kaldvík er þar með í kvíum og í júní 6,7 prósent.
Rúm tvö ár eru nú liðin frá því að Fagráð Matvælastofnunar um velferð dýra frá (15. maí 2023) ályktaði um stöðu dýravelferðar í sjókvíum við Ísland:
„Fagráð um velferð dýra óskar eftir því að fram fari á vegum MAST og Matvælaráðuneytisins mun ítarlegri umræða þegar í stað um hvers konar afföll séu í raun ásættanleg í sjókvíaeldi.“
Fróðlegt væri að vita hvaða vinna hefur farið fram af hálfu MAST og ráðuneytisins.
Ríkisstjórnin hefur boðað að lagt verði fram nýtt frumvarp um lagareldi í haust.
Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum börðumst hart gegn því að frumvarp sem síðasta ríkisstjórn lagði fram vorið 2024 yrði að lögum, meðal annars vegna þess að þar var alltof skammt gengið til að tryggja velferð eldislaxanna.
Ný ríkisstjórn hlýtur að taka fast á þessu dýraníði.
Afföll í sjókvíaeldi á öllu landinu
- Ár Tonn
- 2022 5961,89
- 2023 6164,56
- 2024 4868,73
- 2025 (janúar-júní) 6370,37
…
Eflaust hefði verið hægt að fyrirbyggja að dauðinn yrði svona mikill. „Okkur hjá MAST vantar auknar heimildir til að sjá fyrr í hvað stefnir og þar af leiðandi líka heimildir til að geta brugðist við. Okkar hendur eru svolítið bundnar og stundum horfum við á slysin gerast án þess að geta gert nokkuð í því.“
Í bókun fagráðs um velferð dýra frá maí 2024 segir:
Fagráð um velferð dýra óskar eftir því að fram fari á vegum MAST og matvælaráðuneytisins mun ítarlegri umræða þegar í stað um hvers konar afföll séu í raun ásættanleg í sjókvíaeldi.
Vigdís segir að sífellt sé metið hvað eru ásættanleg afföll. „Við erum stöðugt að leita að þessari fullkomnu tölu sem ég held að sé ekki til. Við viljum engin afföll.“ Verið sé að leita eftir samstarfi og samráði við stjórnvöld í Noregi, Færeyjum, Skotlandi og víðar. „Við erum að bera okkur saman við hvað þeir eru að gera og hugsa,“ segir Vigdís.