Enn á eftir að birta tölur á vef Matvælastofnunar fyrir desember en á ellefu mánuðum 2023 drápust eða var fargað vegna þess að þeir áttu ekki lífsvon, 4,3 milljónir eldislaxa í sjókvíum við Ísland.

Það eru 1,4 milljón fleiri eldislaxa en allt árið 2022, sem var þó það versta í fjölda og hlutfalli dauðra eldisdýra í sögu sjókvíaeldis á Íslandi. Bændur sem færu svona ömurlega með skepnurnar sína á landi væru örugglega ekki lengur með starfsleyfi.

Í nýbirtri umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um drög matvælaráðuneytisins að nýjum lögum um lagareldi, er barist um á hæl og hnakka gegn tillögum um bætta velferð eldisdýra í sjókvíaeldi. Eru þær tillögur þó svo veikburða að gert er ráð fyrir að sjókvíaeldisfyrirtækin verði ekki svipt starfsleyfi fyrr en afföll hafi farið í átján skipti í röð yfir 20 prósent. Það þykir SFS of „íþyngjandi“.

Þessi yfirburða ríkustu og áhrifamestu hagsmunagæslusamtök landsins heimta að aðildarfélög sín fái áfram að níðast á eldisdýrunum, og að lög og reglur verði sniðin að hagsmunum sjókvíeldisfyrirtækjanna, en alls ekki velferð eldislaxanna. Fyrirlitningin á velferð eldisdýranna er fullkomin.

Hvernig stendur á því að íslenskir útgerðarmenn, sem hafa byggt upp traust alþjóðlegt orðspor sjálbærra veiða á villtum fiskistofnum, taka þátt í þessari hagsmunagæslu norskra sjókvíaeldisrisa, sem hafa skilið eftir sig slóð eyðileggingar og mengunar víða um heim?

Myndin sýnir eldislaxa í sjókvíum Arctic Fish í Tálknafirði. Þar þurfti að slátra og farga í október tæplega 1,5 milljón eldislöxum vegna þess hversu illa þeir voru farnir vegna laxalúsar.