Matvælaráðuneytið, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun fengu í sumar svokölluð áskilnaðarbréf frá lögmanni Landssambands veiðifélaga þar sem komið var á framfæri „áskorun um varúð og áskilnaður um bótarétt“ vegna mögulegs tjóns á hagsmunum veiðiréttarhafa um lax- og silungsveiði við framkvæmd laga um fiskeldi.
Er fulltrúum stjórnvalda beint þar á að samkvæmt lögum eigi hagsmunir þeirra sem stundi fiskeldi að víkja þegar þeir fara ekki saman við hagsmuni þeirra sem njóta veiðiréttar samkvæmt lögum.
Staðfesta er að sjókvíaeldi hefur nú þegar valdið skaða á villtum laxastofnum landsins og veiðirétthöfum mikinn kostnaði þegar þeir neyddust til að fara í bráðaaðgerðir síðasta haust við að hreinsa úr ám eldislaxa sem sluppu úr sjókvíum Arctic Fish.
Með nokkrum ólíkindum er að sjá svör ráðuneytisins og stofnananna. Hver bendir á annan og enginn tekur ábyrgð.
Dagljóst er að mál verða höfðuð á hendur stjórnvalda. Ekki verður búið áfram við þá stöðu að stofnanirnar fari ekki að lögum, til dæmis að stöðva rekstur þar sem fiskur sleppur itrekað úr sjókvíum.
Einstaka veiðifélög íhuga alvarlega að leita réttar síns vegna þess tjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir sem rekja megi til umhverfismengunar frá fiskeldi. Þá gagnrýna Landssamtök veiðifélaga stjórnvöld, einkum Matvælastofnun, fyrir að beita ekki þeim heimildum sem stofnunin hafi samkvæmt lögum til að áminna fiskeldisfyrirtæki eða svipta þau starfsleyfi í þeim tilfellum sem við gæti átt. Formaður landssamtakanna segir svör stjórnvalda ekki upp á marga fiska. …
Kallað var eftir svörum ráðherra og stofnananna tveggja um viðbrögð þeirra við stöðunni og því sem fram kemur í skýrslu Hafró, og hafa nú svör borist við öllum bréfum. Gunnar segir svörin mikil vonbrigði. „Svar MAST var nú kannski efnisminnst og það var í rauninni ekkert í því,“ segir Gunnar [Örn Petersen, formaður Landssambands veiðifélaga]. „Í rauninni vísa allir ábyrgð eitthvert annað, sem er náttúrlega mjög sérstakt líka í tilfelli ráðuneytisins þar sem að þau augljóslega stýra þessum málaflokki.“
Í svari sínu hafi Hafrannsóknarstofnun borið það fyrir sig að þau væru rannsóknarstofnun, en ekki stjórnvald sem taki stjórnvaldsákvörðun og þannig vísað málinu frá sér. „Þeim er náttúrlega ákveðin vorkunn og það er kannski smá bastarður í allri þessari löggjöf að áhættumat erfðablöndunar sé bindandi fyrir ráðherra. Vegna þess að með því, þegar Hafró er búið að gefa út þá ráðgjöf sem áhættumatið er, ef það er bindandi þá er það að sama skapi næstum orðin stjórnsvaldákvörðun að gefa það út,“ segir Gunnar.
„Ráðuneytið segir við getum ekki breytt áhættumatinu af því það er Hafrannsóknarstofnunar að gera það og það er bindandi. Þannig allri ábyrgð er alltaf vísað frá.“
Stofnanirnar vísi þannig á hvor aðra í kross en þetta segir Gunnar ekki vera í fyrsta skipti. Til að mynda hafi samtökin ásamt fleirum, meðal annars náttúruverndarsamtökum, átt fund með öllum þeim stofnunum sem með einum eða öðrum hætti koma að ákvörðunum um málefni tengdum sjókvíaeldi.
„Það var bara vísað einhvern veginn annað, að menn hefðu ekki valdheimildir og þetta væri ekki á þeirra könnu. Það var eiginlega mantran alls staðar. Og þeir sem tóku síðan ákvarðanir, eins og MAST til dæmis í leyfisveitingarmálum, þeir segja bara að þeir gefi hiklaust út leyfin þó að leyfin séu kannski á svæðum þar sem að Landhelgisgæslan er búin að segja að gangi ekki að hafa sjókvíaeldi. Þá gefa þeir þetta út með þeim skilyrðum, en þetta virkar bara ekki þannig í raunveruleikanum,“ segir Gunnar, sem vill meina að fjárhagslegir hvatar verði til þess að slíkum skilyrðum sé ekki alltaf fylgt. „Það er enginn öryggisventill þarna, það bremsar þetta ekkert af.“ …