Þær tillögur sem kynntar voru í sumar að strandsvæðisskipulagi á Austfjörðum og Vestfjörðum eru reginhneyksli.

Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig í ósköpunum það gat gerst að tillögur sem snúast nánast alfarið um hagsmuni sjókvíaeldis á kostnað annarra atvinnugreina, öryggi siglingaleiða og fjarskiptainnviða rötuðu alla leið í kynningu hjá Skipulagsstofnun.

Í frétt RÚV segir:

Í tillögu að strandsvæðaskipulagi er eldissvæði leyft í 50 metra fjarlægð frá siglingaleiðinni. Landhelgisgæslan gerir athugasemdir við þetta og telur að skipulagstillagan tryggi ekki öryggi siglinga. Gera þurfi ráð fyrir öryggissvæði sem sé nógu stórt til að tryggja öryggi við verstu aðstæður. Landhelgisgæslan telur að 50 metrar sé ekki nóg, sérstaklega fyrir stór skip. Skip sem sigli á 10 hnúta hraða sé aðeins 10 sekúndur að fara 50 metra. Skip sem verði aflvana í 20 hnúta vindi sé aðeins um 100 sekúndur að reka 50 metra. Því gefi 50 metra öryggissvæði lítinn viðbragðstíma ef eitthvað fer úrskeiðis.

Landhelgisgæslan vill að öryggissvæði siglinga verði fjórfaldað úr 50 metrum í að minnsta kosti 200 metra til að gefa sjófarendum tíma til að breyta um stefnu eða koma út akkeri. Landhelgisgæslan leggur því til að svæði fyrir eldið verði minnkað til að 200 metra öryggissvæði verði tryggt.