Norski fréttavefurinn Ilaks hefur á undanförnum vikum birta fjölda fréttaskýringa og pistla um hvernig landeldi er að breyta laxeldi. Spá sérfræðinganna er að innan tíu ára verði þessi markaður gjörbreyttur.
Forstjóri sjókvíaeldisrisans Salmar, sem er móðurfélag Arnarlax, segir að stærsta áskorun sjókvíaeldisfyrirtækjanna verði samkeppnin við landeldisstöðvar vegna staðsetningar þeirra nærri þeim mörkuðum þar sem á að selja framleiðsluna.
Startkostnaðurinn er vissulega hærri í landeldi en í sjókvíaeldi. Stór hluti af því er vegna þess að náttúran og lífríkið eru látin niðurgreiða starfsemina í sjónum með því að taka við óhreinsuðu skólpi, sjúkdómum, sníkjudýrum og erfðablöndun við villta laxastofna.
Þrátt fyrir alla þessa meðgjöf hefur kostnaðarbilið verið að minnka, því í eldi á landi er hægt að nýta fóður mun betur, ekki þarf að glíma við sjávarlús, sem er bæði stór kostnaðarliður í sjó og orsök gríðarlegs dauða eldisdýra í kvíum, og þar að auki er hægt að endurnýta á landi skólpið og gera úr því til dæmis lífdísel eða áburð.