Ef talsmönnum norsku fiskeldisfyrirtækjanna er alvara með að þeir vilji stuðla að atvinnuuppbyggingu á Íslandi þá er landeldi leiðin sem tryggir það. Sjókvíarnar eru svo ófullkomin tækni að fiskar sleppa alltaf úr þeim og auk þess rennur mengunin frá þeim beint til sjávar. Þær bjóða líka upp á þann möguleika, sem er í sjónmáli, að stór verksmiðjuskip mönnuð erlendri áhöfn geta lagt upp að þeim, sogið eldislaxinn upp og siglt í burt. Þar verða ekki til störf á Íslandi.
Þvert á það sem sjókvíaeldismenn halda fram er landeldi ekki eitthvað sem á eftir að sanna sig. Það er hafið á Íslandi og aðstæður hér veita okkur forskot á flestar aðrar þjóðir, rétt einsog Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku bendir á í viðtali við Fiskifréttir.
„Þessi staðsetning varð ekki síður fyrir valinu vegna jarðhitans. Við erum með samning við HS Orku um nýtingu á affallsvarma sem gerir eldisstöðina hérna einstaka á heimsvísu, og erum aðilar að Auðlindagarðinum. Íslendingar eru með einstaka möguleika á landeldi sem til að mynda bjóðast ekki í öðrum löndum. Norðmenn standa mjög framarlega í fiskeldi en þeir hafa ekki þær náttúrulegu aðstæður sem Ísland hefur upp á að bjóða varðandi landeldi. Þarna höfum við forskot og þess vegna hefur tekist að þróa þó nokkuð af fiskeldi á landi á Íslandi á sama tíma og Norðmenn stunda aðallega seiðaeldi á landi,“ segir Árni Páll.