„Hingað kemur fólk til að upplifa kyrrð og ósnortna náttúrufegurð. Umfangsmikið fiskeldi í opnum sjókvíum er ekkert annað en stóriðja og ef fram fer sem horfir verður starfssemin í nánast öllum fjörðum hér fyrir austan með tilheyrandi umhverfisáhrifum,“ segir Berglind Häsler, einn aðstandenda undirskriftarsöfnunar gegn áætlunum um stófellt sjókvíaeldi á Austfjörðum.
„Umfangsmikið fiskeldi er fyrirhugað víðsvegar á Austfjörðum, meðal annars í Berufirði. Samkvæmt Agli Þórarinssyni, sérfræðingi á sviði umhverfismats hjá Skipulagsstofnun, hefur Fiskeldi Austfjarða heimild fyrir eldi á 6000 tonnum af laxi og 2000 tonnum af regnbogasilungi á tveimur svæðum í firðinum í dag. Fyrirtækið hefur lagt inn umsókn um að fá leyfið stækkað upp í 10.000 tonn af laxi en hyggst ekki halda áfram eldi á regnbogasilungi.“
Undirskriftasöfnun er hafin gegn þessum fyrirætlunum. Að undirskriftarsöfnuninni standa íbúar og velunnarar fjarðanna, eins og í henni stendur, en sami hópur sendi einnig frá sér ítarlega athugsemd til Skipulagsstofununar áður en fresturinn rann út.
„Ég skal vera alveg heiðarleg. Ég á persónulegra hagsmuna að gæta. Fiskeldi Austfjarða sækir nú um leyfi fyrir stóru eldissvæði með útsetningu kvía beint fyrir framan Karlsstaði og Berunes, en þessir aðilar hafa lífsviðurværi sitt af ferðaþjónustu og gera mikið út á sjálfbærni og umhverfisvernd. Hingað kemur fólk til að upplifa kyrrð og ósnortna náttúrufegurð. Umfangsmikið fiskeldi í opnum sjókvíum er ekkert annað en stóriðja og ef fram fer sem horfir verður starfssemin í nánast öllum fjörðum hér fyrir austan með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Af þessu er truflun, óþefur, mengun, sjónrænt lýti að degi til og svo er þetta upplýst í myrkri. Okkur finnst því skelfileg tilhugsun að fá þetta svona í fangið í hrópandi mótsögn við þá starfsemi sem við leggjum áherslu á,“ segir Berglind.
Berglind segir að málið risti þó miklu dýpra. „Auðvitað viljum við ekki fá þetta fyrir utan gluggann hjá okkur, þetta er svo miklu stærra og alvarlegra mál en það. Það er ekkert öruggt í þessu, það eru engar rannsóknir sem hafa sýnt það með beinum hætti að þetta skaði ekki lífríkið. Fyrirtækið sendi skýrslu til Skipulagsstofnunar þar sem vísað var í allskonar heimildir, sem og gögn og vottanir sem standast enga skoðun. Það er til að mynda æðavarp á nokkrum stöðum í Berufirði og ekki er búið að sýna fram á að þetta muni ekki hafa skaðleg áhrif á það.“