Vinnubrögðin við þetta frumvarp þriggja ráðherra VG eru orðin sérstakt rannsóknarefni. Höfundar þess ákváðu að fella burt grundvallaraákvæði meðal annars sem snúast um hvernig sjókvíaeldisfyrirtækin eiga að axla ábyrgð á fiski sem þau láta sleppa úr kvíunum, byggt á lögfræðiálitum sem SFS lét Lex og Logos vinna fyrir sig en eru þó ekki aðgengileg.
Lögfræðiálit sem ráðuneytið lét vinna fyrir sig er hins vegar á allt öðrum slóðum, en höfundarnir kusu samt að fara frekar eftir álitum pöntuðum af SFS.
Meðal lykilhöfunda frumvarpsins eru fyrrum framkvæmdastjóri SFS og fyrrum hagfræðingur hjá SFS, en nú starfsfólk í ráðuneytinu.
Eftir að hafa orðið vitni að þessum vinnubrögðum er óhjákvæmilegt annað annað en að velta fyrir sér hversu skynsamlegt það er að fela fólki, sem hefur mótast í starfi við sérhagsmunagæslu, að gæta hagsmuna almennings gagnvart sömu samtökum og það starfaði áður hjá.
Í umfjöllun Heimildarinnar kemur m.a. fram:
Lögfræðiálit frá lögmannsstofunum Logos og Lex, sem Samband íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja (SFS) greiddi fyrir, voru lykilatriði í því að frumvarpi matvælaráðherra um lagareldi var breytt á þann hátt að viðurlög við slysasleppingum í sjókvíaeldi voru minnkuð. Þetta herma upplýsingar Heimildarinnar. Viðurlögin voru minnkuð þannig í frumvarpinu að í stað þess að hægt yrði að taka framleiðslukvóta í sjókvíaeldinu af laxeldisfyrirtækjunum í kjölfar slysasleppinga þá á nú einungis að geta sektað fyrirtækin sem um ræðir.
Í langri umsögn sem SFS sendi frá sér um frumvarpið var þessari grein frumvarpsins mótmælt harkalega. Þar sagði meðal annars orðrétt um þessar hugmyndir um að skerða framleiðsluheimildir laxeldisfyrirtækja vegna slysasleppinga: „SFS leggjast gegn innleiðingu stjórnsýsluviðurlaga sem fela í sér að rekstrarleyfishafi geti þurft að sæta skerðingu á laxahlut og lífmassa við ákveðnar aðstæður. Þetta á við um ákvæði frumvarpsins um lækkun laxahlutar vegna þekkts og óþekkts strokatburðar og breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla, lúsasmits og meðhöndlunar. Slík ákvæði fela í sér skerðingu á eignarréttindum og atvinnuréttindum sem njóta verndar 72. og 75. greinar stjórnarskrárinnar.“
…
Í svari ráðuneytisins kemur hins vegar fram að umsögn SFS um þessa lagagrein hafi vegið þungt í þeirri ákvörðun að breyta henni. „Í upphaflegum frumvarpsdrögum var gert ráð fyrir að heimildir rekstrarleyfishafa yrðu varanlega skertar í tilvikum strokatburða. Þegar frumvarpið var kynnt inn á samráðsgátt stjórnvalda kom m.a. fram það sjónarmið í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að varanleg skerðing heimilda stangist á við 72. gr. og 75. gr. stjórnarskrár Íslands. Í samráðsferlinu komu jafnframt fram ábendingar frá sjókvíaeldissveitarfélögum þess efnis að skerðing á heimildum rekstraraðila vegna stroks græfi undan byggðafestu þar sem samhliða skerðingu gæti starfsemi dregist saman með fækkun starfa og minni tekjum til viðkomandi sveitarfélaga.“
Í kjölfarið hafi matvælaráðuneytið ákveðið að setja frekar inn sektarákvæði í stað missi á framleiðslukvóta: „Við mat ráðuneytisins á umræddu ákvæði að loknu samráðsferli var talið að ákvæðið gæti stangast á við stjórnarskrárvarin réttindi og var því farin sú leið að beita frekar sektarviðurlögum í þessum tilvikum. Í þeim efnum er sérstaklega litið til meðalhófsreglunnar og skilyrðis hennar um að vægasta úrræðið þurfi að vera valið til þess að ná hinu lögmæta markmiði.“
Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra rökstuddi þessa breytingu á frumvarpinu með þeim hætti í umræðum um það á Alþingi að athugasemdir hafi komið frá „hagaðilum“ og að líklega stæðist það ekki stjórnarskrá að ætla að taka framleiðsluleyfi af laxeldisfyrirtækjum vegna slysasleppinga. „Það er ekkert öðruvísi með þetta mál en önnur. Þegar þau koma úr samráðsgátt stjórnvalda þá eru oft gerðar ýmsar breytingar og það var að þessu sinni líka gert. Það er rakið mjög vel, og ég hvet hv. þingmann til að skoða það í greinargerðinni, þar sem farið er yfir helstu athugasemdir hagaðila og við hverju ráðuneytið brást. Ég vil líka minna á að hér er verið að leggja á 5 millj. kr. sekt við stroki. […] En ég bara vil vekja athygli á því að það eru mjög drjúgar sektir. Það að svipta leyfi, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi, var ekki talið standast atvinnuréttindi í stjórnarskrá.“
Í ljósi þessa er ljóst að umsögn SFS skipti verulegu máli þegar þessari grein frumvarpsins var breytt og viðurlögin við slysasleppingum milduð.
…
Hingað til hafa rekstrarleyfi laxeldisfyrirtækjanna gilt í 16 ár í senn. Sá möguleiki hefur því verið til staðar að ríkisstjórnin á hverjum tíma gæti ákveðið að framlengja ekki leyfin, til dæmis ef pólitískur vilji væri fyrir því að hætta sjókvíaeldi við Ísland. Með nýju lagagreininni er þetta ekki lengur hægt án þess að brjóta gegn eignarrétti laxeldisfyrirtækjanna og baka íslenska ríkinu mögulega, stórfellda skaðabótaskyldu.
Með þessum tveimur greinum frumvarpsins er búið að útiloka það að laxeldisfyrirtækin í landinu geti misst framleiðsluleyfi sín í sjókvíaeldi með einhverjum hætti í framtíðinni. Kvótinn í sjókvíaeldinu er og verður þeirra eign um aldur og ævi. …