Líklega leikur hið afleita lagareldisfrumvarp, sem VG ber höfuðábyrgð á, stóran hluti í þessari hrikalegu stöðu flokksins.

Óskiljanlegt er hvernig það gerðist að hvorki Svandís Svavarsdóttir né Katrín Jakobsdóttir ákváðu að hlusta ekki á ítrekuð varnaðarorð þá mánuði sem frumvarpið var í smíðum í Matvælaráðuneytinu.

Það var alltaf á hreinu að frumvarpið myndi hleypa öllu í bál og brand ef það yrði lagt fram í þeirri mynd sem þær voru varaðar við að gera.

Í frétt Vísis kemur m.a. fram:

… Könnunin, sem var birt í kvöld á RÚV, var framkvæmd 30. apríl til 2. júní 2024. Úrtakið var 12.731 manns og þátttökuhlutfall var 50,2 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mælist þar næststærstur með 18 prósent og Miðflokkurinn, sá þriðji stærsti, er með 13 prósent. Framsóknarflokkurinn og Píratar eru hvor um sig með 9 prósent, Viðreisn fær 8 prósent og Flokkur Fólksins 6 prósent. Minnsta fylgið mælist hjá Sósíalistaflokknum með 4 prósent og Vinstri Grænum, sem mælast með einungis 3 prósent.

Samfylkingin fengi tuttugu og einn þingmann samkvæmt þessum tölum, Sjálfstæðisflokkurinn tólf, og Miðflokkurinn níu. Framsóknarflokkurinn og Píratar fengju sex þingmenn hvor, og Viðreisn fengi fimm. Sósíalistar og Vinstri Græn næðu ekki manni á þing. …