„… greinin og lagaramminn eins og hann er í dag er algjörlega óásættanlegur,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Matvælaráðherra um sjókvaíeldi á laxi og lögin sem gilda um þennan iðnað.
Bjarkey virðist ekki aðeins vera búin að steingleyma því að það var ríkisstjórn sem hún studdi sem setti lögin og mótaði þannig þetta óásættanlega umhverfi heldur virðist hún vera harðákveðin í því að endurtaka þessi ömurlegu mistök með því að keyra í gegn ný lög sem taka engan veginn á djúpstæðum vanda þessa mengandi og skaðlega iðnaðar.
Við hjá IWF ásamt ýmsum öðrum vöruðum í umsögnum og frammi fyrir þingnefndum 2019 við því að sú löggjöf um fiskeldi sem þá var til meðferðar á Alþingi yrði staðfest. Ekki var hlustað á okkur þá. Nú virðist leikurinn ætla að endurtaka sig, eins ótrúlega óskynsamlega og það hljómar.
Í lagareldisfrumvarpinu, sem þrír ráðherrar VG hafa sett fingraför sín á: Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Bjarkey Olsen, skortir lágmarksvernd fyrir villta laxastofna, vistkerfi Íslands og velferð eldislaxanna.
Það er óásættanlegt að sitja undir svona öfugmælavísum einsog ráðherrann lætur hafa eftir sér í viðtölum við fjölmiðla þegar hún segir að frumvarpið sé til hagsbóta fyrir vistkerfið, umhverfið og verndun villta laxastofnsins.
Lögin sem núgilda er vond en að keyra í gegn þetta frumvarp væri stórslys. Eina vitið er að draga það til baka og vinna málið af þeirri virðingu sem lífríki og náttúra Íslands á skilið.
Frumvarp matvælaráðherra um lagareldi er til meðferðar í atvinnuveganefnd Alþingis eftir fyrstu umræðu. Tugir umsagna bárust um frumvarpið, en frestur til að skila inn umsögnum rann út á miðvikudag.
Mikil gagnrýni var á þann hluta frumvarpsins um að rekstrarleyfi væru ótímabundin. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra brást við og lét endurskoða frumvarpið í ráðuneytinu og komu fram tillögur um breytingar er varða gildistíma. Þær séu nú komnar í hendur atvinnuveganefndar.
Ráðherra segir að nefndin þurfi að fylgja því eftir að aðrar greinar frumvarpsins sem séu talsvert íþyngjandi fyrir greinina bæði hvað varðar refsiramma, sektir og fleira nái fram að ganga, það er, markmiðið með frumvarpinu….
Hún segist skilja sjónarmið þeirra sem leggjast gegn ótímabundnum leyfum eða til mjög langs tíma. Fyrir liggi að andstaða sé við sjókvíaeldi, en það breyti þó ekki því að ekki sé pólitískur vilji til að hætta þeirri starfsemi.