Arctic Sea Farm er ekki eina sjókvíaeldisfyrirtækið sem hefur orðið uppvíst að því að nota koparhúðaða netapoka þrátt fyrir að sérstaklega sé tiltekið í starfsleyfi að það sé óheimilt.
Í nóvember 2018 var tilkynnt að í eftirlitsheimsókn Umhverfisstofnunar hafi komið í ljós að Arnarlax var að nota þannig netapoka líka í Tálknafirði og Patreksfirði.
Í framhaldinu tók við atburðarás sem er með nokkrum ólíkindum. Í staðinn fyrir að beita fyrirtækið viðurlögum tóku eftirlitsstofnanir við umsókn Arnarlax um breytingu á starfsleyfi í þá veru að heimild fengist fyrir þessum koparoxíðshúðuðu netapokum, sem það var þegar byrjað að nota, þvert á gildandi starfsleyfi!
Þann 14. janúar síðastliðinn gaf Skipulagsstofnun síðan út þá ákvörðun að slík breyting á starfsleyfi Arnarlax skuli ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Um leið var bent á að ákvörðunina megi kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur sé til 15. febrúar 2021.
Og hver skyldi vera meginástæðan fyrir því að Arnarlax vill fá að nota netapoka sem eru húðaðir með koparoxíði? Jú, þannig getur fyrirtækið sparað sér þrif á netapokunum. Eða eins og segir í greinargerð Arnarlax „Eldisnætur sem ekki innihaldi kopar sem ásætuvörn þurfi að þrífa á um það bil sex vikna fresti en nætur með ásætuvörn sem innihaldi koparoxíð þurfi að þrífa á um það bil átta til tólf mánaða fresti.“
Alltaf skal umhverfið og lífríkið vera í öðru sæti, á eftir fjárhagslegum hagsmunum sjókvíaeldisfyrirtækjana.
Í Noregi, þar sem sjókvíaeldið á sér lengri og umfangsmeiri sögu, er ástandið fyrir all löngu orðið þannig að rauð viðvörunarljós blikka vegna óásættanlegrar koparmengunar í fjörðum landsins frá laxeldinu. Sjá umfjöllun Stavanger Aftonblad.