Andstaða almennings gegn eldi í sjókvíum hefur aldrei mælst meiri en nú. Hátt í 60 prósent aðspurðra eru andvíg þessari óboðlegu aðferð við matvælaframleiðslu samkvæmt nýrri könnun Maskínu.
Á undanförnum þremur mánuðum hafa þrjú könnunarfyrirtæki kannað afstöðu þjóðarinnar til sjókvíaeldis á laxi og niðurstöðurnar alltaf verið afgerandi. Þrisvar til fjórum sinnum fleiri eru neikvæð gagnvart sjókvíaeldinu en jákvæð.
Könnun Gallup fyrir NASF sýndi að 61.3% landsmanna eru andvíg sjókvíaeldi.
Könnun Prósents fyrir Mbl.is sýndi að 59% eru andvíg sjókvíaeldi.
Þetta er frábær vitnisburður. Fólk hefur kynnt sér málin og vill ekki styðja þessu skaðlegu framleiðsluaðferð fyrir umhverfið og lífríkið, og þar sem ömurlega er farið með eldislaxana.
Maskína hefur kannað afstöðu almennings til sjókvíaeldis síðan 2021, og andstaðan hefur aldrei mælst meiri.
Á heimasíðu Maskínu segir um niðurstöður könnunarinnar:
„Það er í fyrsta sinn núna sem að niðurstöður Maskínu sýna meira en helming aðspurðra andvíga laxeldi í sjó. Fyrir um ári síðan voru 43% andvíg en í ár hefur bæst duglega í þann hóp eða um ein 14 prósentustig og eru því 56-57% andvíg því nú. Að sama skapi hefur sá hópur sem er hlynntur slíku eldi dregist nokkuð saman frá fyrri árum. Í ár segjast næstum 15% aðspurðra hlynnt laxeldi í sjó en síðastliðin tvö ár hefur sá hópur verið 21-22%. …
Andstaðan er minni í landsbyggðarkjördæmunum að Suðurkjördæmi undanskildu en þar eru 59% íbúa andvíg laxeldi í sjó sem er sambærilegt niðurstöðum fyrir höfuðborgarsvæðið. Rétt innan við helmingur íbúa í hinum þremur landsbyggðarkjördæmunum er andvígur sjóeldinu Þessar niðurstöður eru þó mjög ólíkar þeim sem Maskína birti fyrir um ári þar sem stuðningurinn hefur dregist mikið saman. Ríflega 40% svarenda á Vesturlandi og Vestfjörðum voru þá hlynnt laxeldi í sjó samanborið við 23% nú. Sömu sögu er að segja af Austurlandi, þótt sveiflan sé ekki jafn mikil, þar sem tæplega 30% voru hlynnt eldinu fyrir um ári síðan en nú hefur sá hópur dregist saman í 23%. …
Talsverðan breytileika er að sjá á afstöðu svarenda eftir stjórnmálaskoðun þeirra. Þannig eru kjósendur þriggja flokka sem skera sig frá öðrum og eru mun hlynntari laxeldi í sjó en kjósendur annarra flokka. Það eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, þar sem stuðningurinn er mestur eða rúmlega þriðjungur, kjósendur Miðflokksins, þar sem stuðningurinn er innan við 30%, og kjósendur Framsóknarflokksins, en rétt um 20% þeirra eru hlynnt laxeldi í sjó. Á hinum endanum er svo að finna kjósendur Pírata og Sósíalistaflokksins þar sem andstaðan er mest. Slétt 82% kjósenda Pírata eru andvíg eldinu og um 90% kjósenda Sósíalistaflokksins.