Verð á laxi hefur verið í hæstu hæðum undanfarin tæp tvö ár eftir að framboðið á heimsmarkaði dróst saman vegna hremminga í framleiðslunni í Noregi og Chile. Þessi lönd hafa nú náð vopnum sínum og framboðið er að stóraukast á ný. Það er því viðbúið að verðið muni halda áfram að lækka.
Mjög fróðlegt er að skoða þróunina á „Laxavísitölunni“ á síðu NASDAQ. Kílóverðið var til dæmis undir 51 norskri krónu fyrir dýrasta fiskinn svotil allt árið 2015 og fram eftir 2016 en rauk svo upp undir árslok. Verðið var mjög hátt allt árið 2017 en er nú tekið að falla á nýjan leik. Hæsta kílóverð í fyrstu viku 2018 var 63 norskar krónur en var til samanburðar 95 krónur í fyrstu viku 2017.
Er þetta verðfall svotil örugglega ástæða þess að laxeldisfyrirtækið Bakkafrost í Færeyjum ákvað að segja upp helmingi starfsfólks síns á starfsstöð fyrirtækisins að Glyvrum í vikunni, 147 manns af 300. (Uppfært eftir ábendingu 16.01.)