„Sagan er að endurtaka sig frá því fyrir fimm árum síðan. Þá voru það fyrrum starfsmenn Arnarlax sem komu að samningu frumvarps. Við hjá íslenska náttúruverndarsjóðnum mættum fyrir þingnefndir, töluðum beint við þáverandi ráðherra og þingmenn og vöruðum við því frumvarpi sem þá var lagt fram og varð að lögum,“ segir Jón.
„Nú kallar ráðherrann þetta algjörlega óásættanlegt umhverfi og hún tók samt þátt í því með sinni ríkisstjórn að setja þessi lög. Þau eru að fara að endurtaka þessi mistök. Við vörum aftur við því að þau lög sem nú eru til umræðu í þinginu verði samþykkt,“ sagði Jón Kaldal talsmaður okkar hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum í fréttum Stöðvar2.
Talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins segir að fingraför Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafi orðið sífellt meira áberandi við þróun frumvarps um lagaraeldi. Iðnaðurinn sé með allt niður um sig og stór meirihluti þjóðarinnar á móti honum.
Bjarkey Olsen matvælaráðherra skrifaði skoðanagrein á Vísi í morgun þar sem hún segir að vegið hafi verið að æru embættismanna í umræðu um breytingar á umgjörð um lagareldi á Íslandi. Unnin hafi verið vönduð og góð vinna við frumvarpið og allt sé uppi á borðum.
Jón Kaldal, talsmaður íslenska náttúruverndarsjóðsins, ræddi við Telmu Tómasson um gagnrýni ráðherrans og breytingarnar sem verið er að gera á íslensku lagareldi með frumvarpinu. …
Finnst ykkur ekki vera nógu mikið samráð haft við ykkur?
„Þetta er hálfgert sýndarsamráð. Við vorum kölluð inn í haust og komum þarna með opnum huga. Það var talað um að það ætti að herða mjög reglurnar um þennan skaðlega iðnað,“ segir Jón.
„Í hverri umferð sem við sáum frumvarpið taka breytingum urðu fingraför SFS meira áberandi og á sama tíma kom ekkert af okkar ábendingum þarna inn. Þetta náttúrulega gengur ekki,“ segir hann.
„Þessi iðnaður er með meira eða minna allt niður um sig, eldisdýrin eru að drepast í gríðarlega stórum stíl hjá þeim, það er sleppifiskur og mikil mengun. Sjötíu prósent þjóðarinnar eru á móti þessum iðnaði.“
Samþykkt lög muni fylgja þingmönnum til æviloka
Þið hafið kallað eftir því að þetta frumvarp verði kallað til baka og unnið upp á nýtt?„Ég vona það innilega. Það yrði stórslys ef þetta frumvarp yrði að lögum. Ég hef enga trú á því að það sé hægt að breyta því nógu mikið til að það verði boðlegt áður en þetta þing lýkur störfum.“
„Þannig ég vona innilega að enginn þingmaður taki þátt í því að reisa sé minnisvarða sem mun fylgja þeim til æviloka með því að samþykkja lögin í þeirri mynd sem þau eru núna,“ segir Jón Kaldal að lokum.