Við vonum innilega að grasrótin í VG nái að leiða flokkinn útúr þeim ógöngum sem frumvarp Svandísar, Katrínar og Bjarkeyjar hefur leitt flokkinn í.

Fyrrverandi forystumaður og ráðherra VG lýsir stöðunni svona:

„Flest grundvallaratriði sem frumvarpið byggir á ganga þvert gegn stefnu Vg sem m.a. ég barðist fyrir sem talsmaður flokksins í sjávarútvegsmálum og ráðherra þess málaflokks um tíma.“

Í færslunni skefur Jón ekkert utanaf hlutunum:

Frumvarp um lagareldi sem nú liggur fyrir aþingi er með hreinum ólikindum,

Þar er lagt til að festa í lög heimildir fyrir ótímabundnum rekstrarleyfum til fiskeldis í fjörðum landsins.

Leyfin verði bæði framseljanleg og framleigjanleg eins og hver önnur „brask“ vara í viðskiptum.

Takmarkaðar kröfur eru settar til varnar umhverfisinu, mengunar eða lífríkis í nágrenni eldistöðva.

Eldi verður áfram heimilað á frjóum erlendum eldislaxi sem getur spillt náttúrulegum laxastofnum í ám landsins

Hvað sem líður öllum öðrum þáttum frumvarpsins sem ýmsir geta verið til bóta, vantar grunnhugsjónina um varúð og verndun lífríkis og að leyfisveitingar séu tímabúndnar undir ströngum skilyrðum og miklu eftirliti.

Ef á annað borð á að leyfa laxeldi í sjó við Ísland.

Þá eru hagsmunir þeirra byggða að vel sé til vandað og tekjurnar renni til heimahéraða.

Bótakröfur- ábyrgð- viðurlög
Hvergi er í frumvarpinu minnst á að fyrirtæki þurfi að leggja fram í upphafi staðfestar og viðurkenndar tryggingar fyrir hugsanlegum skaðabótum ef mistök verða.

Sú hugmyndafræðilega nálgun sem Vinstri hreyfingin grænt framboð stóð fyrir á sínum tíma og ég minnist sem þingmaður og ráðherra málaflokksins virðist lítt sýnileg í þessu frumvarpi.

Gengur þvert á grunngildi VG
Flest grundvallaratriði sem frumvarpið byggir á ganga þvert gegn stefnu Vg sem m.a. ég barðist fyrir sem talsmaður flokksins í sjávarútvegsmálum og ráðherra þess málaflokks um tíma.

Því finnst mér með ólikindum að það skulu vera ráðherrar Vg sem leggi frumvarpið fram í þessum búningi,

Sjálfstæðismenn og Framsóknarþingmenn verja grimmt hagsmuni sinna
Sjálfstæðisþingmenn reyndust mér sem ráðherra harðdrægir sem á sínum tíma – gengu m.a. út af þingfundi í atkvæðagreiðslu um strandveiðar til þess að reyna að stöðva málið

Og sögðu síðan allir nei.

Framsóknarmenn sátu þó hjá við málið fyrir rest eftir mikla andstöðu í þinginu.

En samt er mér til efs að ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði þorað sjálfir að leggja fram slíkt frumvarp sem þetta

Frumvarp sem fæli í sér ótímabundinn, framseljanlegan nýtingarrétt á auðlindum og náttúru innfjarða á Íslandi.

Því hefði örugglega ekki verið tekið andmælalaust af þingmönnum Vg á þeim tíma.

Ráðherra getur kallað málið til baka úr þinginu
Vonandi sjá menn að sér, biðjast afsökunar og ráðherra afturkalli frumvarpið til þess að vinna það betur.

Rétt er að minnast fyrstu greinar laga um stjórn fiskveiða.

Þar er kveðið skýrt að orði:

“Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildinni.”

Náttúran- lífríkið – fjölbreytileikinn á sinn eigin rétt og varúðarregluna ber að virða.

Það ráðstafar enginn þjóð lífríkisauðlindum sínum ótímabundið, sama hverjir eiga í hlut

Baráttumál Vg meðan ég var sjávarútvegsráðherra var að halda forræði auðlindarinnar hjá þjóðinni og nýtingarréttur væri ávalt tímabúndinn og og ráðstöfun hans væri hjá þjóðinn- -alþingi og ríkistjórn.