Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum – The Icelandic Wildlife Fund (IWF) höfum sent til Skipulagsstofnunar eftirfarandi umsögn um tillögu Hafrannsóknastofnunar á afmörkun eldissvæða fyrir fiskeldi í Arnarfirði sem kynnt var á vefsvæði stofnunarinnar í júlí og ágúst 2020:
Í kynningu Hafrannsóknastofnunar koma fram hnit fyrir 54 eldissvæði fyrir sjókvíar í Arnarfirði, Fossfirði og Trostansfirði. IWF gerir alvarlegar athugasemdir að þar af eru ellefu eldissvæði innan við fimm kílómetra frá ósi Dufandalsár í Fossfirði og sex svæði innan við fimm kílómetra frá ósi Sunndalsár í Trostansfirði. Þar á meðal er gerð tillaga um fjögur eldissvæði innan við einn kílómetra frá ósi Dufandalsár og er það svæði sem næst er ósnum í aðeins um 300 metra fjarlægð. Þá eru samkvæmt tillögunni tvö eldissvæði innan við 1,5 kílómetra frá ósi Sunndalsár.
Útgefnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýna að lax er ríkjandi tegund í báðum þessum ám og þéttleiki seiða mikill í Sunndalsá og talsverður í Dufandalsá. (Sjá: „Útbreiðsla og þéttleiki seiða laxfiska á Vestfjörðum, frá Súgandafrði til Tálknafjarðar“
Þá hefur þegar verið staðfest erfðablöndun norsks eldislax sem sloppið hefur úr sjókvíum við villta laxastofna á Vestfjörðum og því mikið tilefni til að sýna varfærni við ákvörðun eldissvæða. Þar á meðal voru skýr merki um erfðablöndun í Sunndalsá. Sjá: „Erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna“
Samkvæmt Reglugerð um fiskeldi (540/2020) skal „Matvælastofnun skal tryggja að fjarlægðarmörk sjókvíaeldisstöðva frá ám með villta stofna laxfiska og sjálfbæra nýtingu séu eigi styttri en 5 km þegar um laxfiska er að ræða í eldi. Miðast framangreind fjarlægðarmörk við loftlínu, nema þegar tangar skilja á milli.“
Þá má benda á að í lögum um fiskeldi „ skal taka mið af því að markmið laga þessara er m.a. að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Skal í því sambandi m.a. litið til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar frá veiðiám og veiðiverðmætis á viðkomandi svæði, þ.e. firði eða flóa. Jafnframt skal litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár.“ (Sjá 6. gr. Staðbundið bann við starfsemi.)
Erðfablöndun og lúsasmit
Fjarlægðarmörk sjókvíaeldisstöðva frá ósum laxá skipta grundvallarmáli þegar kemur að skaðaminnkun vegna eldis á laxi í sjókvíum. Nálægð sjókvía við laxár eykur líkur á að eldislax gangi uppi í viðkomandi ár þegar hann sleppur í sjókvíum og þyngir verulega álag á villt sjógönguseiði laxa þegar lúsasmit (laxalús og fiskilús) kemur upp í sjókvíunum. Vegna þess hversu Arnarfjörður er þröngur (um fjórir kílómetrar fyrir utan Fossfjörð og Trostansfjörð) búa villt gönguseiði úr Dufandalsá og Sunndalsá reyndar við þær illu aðstæður að eiga sér enga undankomu aðra sér auða en að synda í gegnum lúsagerið á leið sinni til hafs, þegar þær aðstæður eru uppi.
Lögfesting áhættumats erfðablöndunar árið 2019 var jákvætt skref en mikilvægt er að hafa í huga að eðli málsins samkvæmt tekur það tekur ekki til skaðans sem sníkjudýr og sjúkdómar í sjókvíaeldi valda villtum laxa- og silungsstofnum.
Lúsafár í sjókvíaeldiskvíum, sem eru í fjörðum þar sem eru lax- og silungsár, eykur lúsasmit á villtum stofnum og vega þannig að lífslíkum þeirra í náttúrunni. Rannsóknir hér við Ísland og í öðrum löndum staðfesta þessi áhrif.
Á sínum tíma sýndu Íslendingar meiri framsýni en ýmsar aðrar þjóðir með því að loka ákveðnum hlutum strandlengjunnar fyrir sjókvíaeldi með það fyrir augum að vernda villta lax- og silungsstofna landsins. Var þá eingöngu horft til lax- og silungsveiðiáa sem gáfu af sér veiðihlunnindi og tilgangurinn fyrst og fremst að draga úr áhrifum erfðablöndunar eldisfisks við laxastofna. Laxalús var þá ekki tekin með í reikninginn þar sem hún var þá svotil óþekkt vandamál í sjókvíaeldið við landið.
Frá ákvörðun um lokun hluta strandlengjunnar var tekin hefur hins vegar komið í ljós að laxalús er orðin viðvarandi og alvarlegt vandamál í sjókvíaeldi við Ísland. Þannig hefur Matvælastofnun ( MAST) gefið út á hverju ári frá 2017 leyfi fyrir notkun kemískra efna eða lyfja til að meðhöndla lúsasmitaðan eldislax í sjókvíum á Vestfjörðum. Þá hafa vísindarannsóknir sýnt að á Vestfjörðum eru margfalt fleiri ár sem búa yfir lax- og silungsstofnum en talið var þegar ákveðið var að leyfa sjókvíaeldi þar.
Rauðir punktar sýna staðsetningar eldissvæða samkvæmt hnitum sem koma fram í kynningu Skipulagsstofnunar. Alls eru sautján möguleg eldissvæði innan við fimm kílómetra frá ósum Dufandalsár og Sunndalsár. Mynd/Skjáskot úr Google Maps
Fjölmargar ár með sérstökum villtum stofnum eru á svæðum þar sem sjókvíaeldið hefur margfaldast að umfangi. Þessir stofnar hafa þegar skaðast af þeirri starfsemi. Þetta fer í bága við sjálfstæðan tilverurétt villtu stofnanna í náttúru landsins samkvæmt lögum um náttúruvernd (1. og 2. gr. nr. 60/2013 með síðari breytingum) og samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggur áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þar með talið þeirra erfðaauðlinda sem lífríkið býr yfir.
Til að undirstrika alvarleika málsins má benda á meistaraverkefni í sjávar- og vatnalíffræði eftir Evu Dögg Jóhannesdóttur en þar kemur fram að lúsasmit villtra laxfiska á eldissvæðum á Vestfjörðum hefur aukist: „Rannsóknir sýna að á svæðum þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er stundað eru villtir laxfiskar meira smitaðir af sjávarlús, einna helst laxalús, heldur en svæðum án eldis. Eldi á laxi (Salmo salar) í sjó er nýleg atvinnugrein á Íslandi og því mikilvægt að afla þekkingar um sjávarlýs á villtum laxfiskum. Laxeldi var stundað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða árið 2017. Í þessu verkefni var lúsasmit villtra laxfiska, sjóbirtings (Salmo trutta) og sjóbleikju (Salvelinus alpinus), kannað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða frá júní til september 2017 og niðurstöður bornar saman við lúsatalningar í kvíum á svæðinu, sem og fyrri athuganir á villtum laxfiskum. Niðurstöður sýna aukið smit villtra laxfiska á svæðinu og gefa vísbendingu um neikvæð áhrif á þessa stofna.“ (Sjá: Sea lice infestation on wild salmonids in the southern part of the Icelandic Westfjords, meistaraverkefni í sjávar- og vatnalíffræði eftir Evu Dögg Jóhannesdóttur, við Háskólann á Hólum, 2019.)
Í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 2018 um umsókn Arnarlax um aukið sjókvíaeldi í Arnarfirði er bent á að það komi „skýrt fram í gögnum framkvæmdaraðila að laxalús sé orðin vandamál í fiskeldi hér á landi. Fyrir notkun lúsalyfja hafi fjöldi lúsa á eldisfiskum verið langt yfir þeim mörkum sem sett hafa verið í Noregi varðandi þörf fyrir meðhöndlun við laxalús. Þá hafi einnig þurft að meðhöndla eldisfisk vegna fiskilúsar sem hafi verið vandamál í fiskeldi bæði í Færeyjum og Skotlandi. Hér sé því um raunverulegt vandamál að ræða sem geti snert bæði fiskeldi og villta stofna. Þá komi fram í gögnum framkvæmdaraðila að vísbendingar séu um að laxalús finnist í vaxandi mæli á villtum fiskum á eldissvæðum. (Sjá: Framleiðsluaukning á laxi um 4.500 tonn á vegum Arnarlax í Arnarfirði – Ákvörðun um matsskyldu. Skipulagsstofnun, 2018.)
Sérstök ástæða er því til að fara að gát á við úthlutun eldissvæða í Arnarfirði og innfjörðunum Fossfirði og Trostansfirði. Í raun má furðu sæta að Hafrannsóknastofnun leggi ekki til að þrengja mjög skilyrði fyrir sjókvíaeldi á svæðinu eða jafnvel nema úr gildi leyfi fyrir þessari starfsemi fremur en að fara með kvíarnar nánast upp í ósa áa með villtum íslenskum laxastofnum.