Í morgun ítrekuðum við hjá IWF enn einu sinni ósk um upplýsingar um rekstur sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem Matvælastofnun (MAST) er skylt að birta samkvæmt lögum og gildandi reglugerð, en birtir þó ekki.

Þetta er fráleit staða í ljósi þess að stofnunin (ásamt Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun) hefur kynnt til umsagnar fjölda breytinga á leyfum sjókvíaeldisfyrirtækjanna sem starfa hér á landi. Við gerð þeirra umsagna eru þær upplýsingar sem stofnunin heldur frá almenningi mjög mikilvæg heimild.

Þetta ástand er lýsandi fyrir óásættanleg lausatök opinberra stofnana með þessum mengandi iðnaði sem skaðar umhverfið og lífríkið.

Ljósmyndin sem fylgir þessari færslu er af sjókvíaeldislaxi hér við land. Um 50 prósent eldisdýranna í sjókvíunum eru ýmist heyrnarlaus, vansköpuð eða ná ekki fullum vexti. Þetta er ekki boðleg aðferð við matvælaframleiðslu.

Erindið sem fór til MAST:

Fyrir hönd Íslenska náttúruverndarsjóðsins – The Icelandic Wildlife Fund, ítreka ég ósk um eftirfarandi upplýsingar á grundvelli 56. greinar reglugerðar um fiskeldi:

1) Skýrslum með lýsingu á því sem fram kom í nýjustu eftirlitsheimsóknum Matvælastofnun til þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi hér við land og hvort starfsemin sé í samræmi við rekstrarleyfisskilyrði.

Samkvæmt reglugerðinni skal Matvælastofnun „leitast við að birta ofangreint innan tveggja mánaða frá eftirlitsheimsókn.“

2) Niðurstöðum vöktunar á viðkomu sníkjudýra hjá þeim sjókvíaeldisfyrirtækjum sem MAST segir hafa skilað þeim framleiðsluskýrslum sem reglugerðin gerir kröfum um, og MAST skal birta innan tuttugu daga eftir skil samkvæmt reglugerðinni.
Reglugerðin tók gildi 1. júní 2020 og lögin sem hún byggir á þann 1. janúar 2020.

MAST er skylt að veita þessar upplýsingar. Þær eru mikilvæg vinnugögn vegna fjölda breytinga á starfs- og rekstrarleyfum fiskeldisfyrirtækja sem meðal annars MAST, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun hafa kynnt til umsagnar á undanförnum mánuðum.

Þann 5. febrúar síðastliðinn rann til dæmis út umsagnarfrestur um tillögu MAST um rekstrarleyfi fyrir meira en tvöföldun á sjókvíaeldi Arctic Sea farm (ASF) í Dýrafirði.

Í skýrslu, sem birt er á vef Umhverfisstofnunar, frá eftirlitsheimsókn á síðasta ári (5. júní) eru gerðar athugasemdir við ýmis „frávik“ sem eru ekki í samræmi við starfsleyfi ASF í Dýrafirði:

– Of mikill lífmassi í sjókvíum.
– Koparlitaðar netanætur í kvíum, sem má ekki skv starfsleyfi.
– Losun fosfórs í sjó er umfram heimildir.
– Sýnatöku ekki verið sinnt eins og kveðið er á um að eigi að gera samkvæmt starfsleyfi.

MAST hefur ekki birt lögbundnar upplýsingar um starfsemi þessa fyrirtækis. Hver er staðan í þeim þáttum sem MAST á að hafa eftirlit með?

Ekki er við það búið að MAST haldi aftur af birtingu upplýsinga um rekstur sjókvíaeldisfyrirtækja, sem stofnuninni er þó skylt að birta samkvæmt lögum og reglugerð, á sama tíma og frestur MAST til umsagna um gríðarlegar auknar heimildar sömu fyrirtækja fyrir auknu eldi er sniðinn þröngur stakkur, eða liðinn.