Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum eru meðal þeirra 27 sem hafa kært til ríkissaksóknara niðurfellingu lögreglustjórans á Vestfjörðum á rannsókn á sleppingu Arctic Fish á þúsundum eldislaxa úr sjókví í Patreksfirði.

Matvælastofnun (MAST) er ennig meðal kærenda en forstjóri stofnunarinnar segir í meðfylgjandi frétt RÚV að með betra eftirliti og verklagi hefði verið hægt að koma í veg fyrir sleppinguna.

Í frétt RÚV segir:

Matvælastofnun kærði slysasleppinguna í ágúst síðastliðnum til lögreglustjórans á Vestfjörðum sem rannsakaði málið, og tilkynnti í síðasta mánuði að hann hefði hætt rannsókn og fellt það niður. Matvælastofnun hefur kært þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Hrönn Jörundsdóttir er forstjóri Matvælastofnunar.

„Okkar rannsókn leiðir það í ljós, og að okkar mati þá teljum við að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir þennan atburð með betra eftirliti og betra verklagi og þetta hefði átt að vera fyrirséð. Því teljum við það rétt að það þurfi að rannsaka þetta frekar og það er ástæðan fyrir því að við kærum þetta áfram.“…

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Vestfjörðum í desember síðastliðnum kemur fram að rannsókninni hafi verið hætt þar sem ekki hafi verið grundvöllur til að halda henni áfram. Gögn málsins bæru ekki með sér að umbúnaði við kvína hafi verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis Arctic Fish, og sakir væru miklar. Hrönn segir rannsókn Matvælastofnunar benda til annars.

„Við teljum allavegana vera grundvöll til að rýna þetta betur og væntum þess að ríkissaksóknari skoði þetta í kjölinn og taki síðan sjálfstæða ákvörðun um það.“