Við hjá IWF erum í hópi 25 samtaka og fyrirtækja sem kallar eftir trúverðugri áætlun um bann við laxeldi í sjókvíum hér við landi. Við skorum á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, að stöðva þennan skaðlega iðnað áður en það verður um seinan.

Í umfjöllun RÚV segir:

25 samtök og fyrirtæki kalla eftir trúverðugri áætlun sem banni alfarið laxeldi í sjókvíum hér við landi. Þau skora á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, um stöðva slíkt laxeldi áður en það verði um seinan. Tilefnið er 120 milljóna króna sekt sem Matvælastofnun lagði nýverið á fyrirtækið Arnarlax, sekt sem fyrirtækið ætlar að reyna að fá fellda niður fyrir dómstólum.

Arnarlax fékk sektina fyrir að tilkynna ekki um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski. Við slátrun við Haganes í Arnarfirði í október gat fyrirtækið ekki gert grein fyrir afdrifum 81 þúsund laxa.

Arnarlax telur að ekki séu forsendur til að ætla að fiskur hafi sloppið úr kvíum tveimur mánuðum áður en fyrirtækið tilkynnti um það. Það ætlar því að fá sektinni hnekkt fyrir dómi.

Fyrirtækin og samtökin 25 segja í yfirlýsingu til fjölmiðla í kvöld að slysasleppingin sé staðfesting þess að fögur fyrirheit fyrirtækja í sjókvíaeldi séu fölsk. Þá opinberi það skeytingarleysi gagnvart hagsmunum náttúrunnar að fyrirtækið skuli mótmæla sektargreiðslunni.

Á það er bent að villti laxastofninn telji um 50 þúsund laxa og að Íslandi séu rúmlega 2.250 lögbýli sem treysti á tekjur frá laxveiðiám. Efnahagslegt virði lax-og silungsveiða nemi 13,5 milljörðum og að slys á borð við þetta rýri verðmæti þessarar auðlindar sem fjölskyldur á landsbyggðinni treysti á. „Orðspor Íslands sem upprunalands hreinleika er líka svert.“

Hafi stjórnvöld áhuga á að vernda villta laxastofna og náttúru Íslands verði að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum. Á meðan þessi atvinnugrein sé stunduð verði að gera það eftir allra ströngustu stöðlum og ekki megi gefa neinn afslátt af þeim. „Undirrituð samtök og fyrirtæki skora á matvælaráðherra að stöðva laxeldi í opnum sjókvíum áður en það verður um seinan. Kallað er eftir trúverðugri áætlun sem miðar að því að banna alfarið laxeldi í sjókvíum hér við land.“

Fyrirtækin 25 eru NASF á Íslandi, Landssamband Veiðifélaga, Icelandic Wildlife Fund, Laxinn Lifi, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ungir Umhverfissinnar, Lax-á, Veiðiflugur, Veiðivön, Höklar, Six Rivers Project, Stóra-Laxá, Fuss, Laxá á Ásum, Starir, Miðfjarðará, Eleven Experience, Norðurá, Stangaveiðifélag Reykjavíkur (SVFR), Hreggnasi, Vatnsdalsá, Veiðifélagið, Fish Partner og Flugubúllan.