Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að íslenskum ríkisborgurum hefur fækkað jafnt og þétt þar sem sjókvíeldi á laxi er mest við Ísland, á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta er þvert á það sem hagsmunagæslusamtök sjókvíaeldisfyrirtækja hafa haldið fram en meginrök þeirra hafa verið að sjókvíaeldi á laxi styrki búsetu í brothættum sjávarbyggðum og laði til baka ungt fólk sem hefur flutt úr þessum bæjum og þorpum. Það er rangt samkvæmt tölum sem fengnar eru frá Hagstofu Íslands í skýrslunni.
Sérstaka athygli vekur í skýrslu Hagfræðistofnunar hvað barnafólki fækkar á Tálknafirði og Bíldudal og hvað þeim fjölgar sem búa einir. Einstaklingarnir eru flestir karlar og líklega hyggja þeir ekki á langa dvöl á þessum slóðum. Skýrar vísbendingar eru um að stór hluti starfsmanna sjókvíaeldisfyrirtækjanna líti fremur á þorpin sem nokkurs konar verbúðir en eiginlegt heimili.
Börnum og fjölskyldum fækkar
Frá ársbyrjun 2014 fram á haust 2023 fækkaði íslenskum ríkisborgurum á sunnaverðum Vestfjörðum um 90. Á sama tíma fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 290 í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Haustið 2023 voru 31 prósent íbúa hreppanna tveggja erlendir ríkisborgarar.
Tölur um fjölda karla og kvenna á svæðinu vekja líka athygli. Samtals fjölgaði körlum um 28 prósent á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á árunum 2014 til 2023. Á sama tíma fjölgaði konum aðeins um 5 prósent, en börnum, 15 ára og yngri, fækkaði um 7 prósent. Þeim sem búa einir fjölgaði um 227 á þessum árum, en eiginlegum fjölskyldum, það er hjónum, sambúðarfólki og einstæðum foreldrum, fækkaði um 8 prósent. Það liggur í augum uppi að þessi samsetning íbúa er ekki vænleg undirstaða sjálfbærs samfélag.
Kynjahlutföllin eru sérstaklega sláandi á Bíldudal, en karlar eru líka mun fleiri en konur á fjörðunum þar fyrir sunnan. Að jafnaði eru börn, 15 ára og yngri, tæp 20 prósent mannfjöldans hér á landi. Á Patreksfirði er hlutfallið 20 prósent, en það er 16 prósent á Tálknafirði og 13 prósent á Bíldudal.
Niðurstaða skýrslunnar í þessum efnum er skýr. Þau kjör sem bjóðast við störf við sjókvíaeldi á laxi freista landsmanna ekki nóg til þess að þeir flytji þangað sem það er stundað.
Vegur ekki þungt í íslensku atvinnulífi
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að þótt sjókvíaeldi á laxi hafi vaxið hratt á undanförnum árum vegur það ekki þungt í íslensku atvinnulífi. Þáttatekjur í greininni voru 0,3 prósent af tekjum í atvinnulífinu öllu árið 2022, en hlutur alls fiskeldis var þá hálft prósent. Þáttatekjur eru summa rekstrarafgangs, afskrifta og launa og tengdra gjalda. Hlutdeild sjóeldis á laxi í atvinnu er heldur minni, eða um 0,2 prósent.
Árið 2022 voru 330 ársverk unnin í sjóeldisfyrirtækjunum fimm, samkvæmt ársreikningum þeirra. Hér eru talin störf í seiðaeldi á landi og fiskvinnslu annars staðar en á Austurlandi.
Skýrsla Hagfræðistofnunar var unnin að ósk Íslenska náttúruverndarsjóðsins sem greiddi fyrir gerð hennar ásamt NASF, Laxinn lifi og Landsambandi veiðifélaga.
Uppleggi skýrslunnar var að stofnunin tæki saman skýrslu um hagræn áhrif eldis á laxi í sjókvíum hér við land. Taka skyldi saman hagtölur fyrir greinina frá 2015, eftir því sem gögn leyfðu, og rýna í áhrif hennar á hagkerfið. Virðisauki í opnu sjókvíaeldi á laxi undanfarin ár yrði metinn og hlutur greinarinnar í hagvexti á landinu öllu og í einstökum landshlutum. Í þessu samhengi yrði horft á íbúafjölda, fólksflutninga og þróun fasteignaverðs í einstökum sveitarfélögum og landshlutum. Þá yrðu teknar saman tölur um ársverk og laun á ársverk í sjóeldi. Jafnframt yrði horft á útgjöld vegna hafnarframkvæmda, sem tengdust eldinu. Að auki yrði þess freistað að meta áhrif eldisins á viðskiptajöfnuð.
Skýrslan er aðgengileg í heild á PDF formi sem hægt er að skoða með því að smella á þennan hlekk.