Hugsið ykkur þetta ástand. Nú er sinnuleysi íslenskra stjórnvalda og stofnana gagnvart öryggi Farice fjarskiptastrengjanna farið að valda verulegum áhyggjum í Færeyjum.
Stjórnvöld hafa í engu sinnt fjölda aðvarana um að gert er ráð fyrir sjókvíaeldissvæðum langt innan helgunarsvæðis strengjanna í Seyðisfirði.
Lét þáverandi innanríkisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, meðal annars þessar aðvaranir sem vind um eyru þjóta þegar hann staðfesti stórgallað strandsvæðaskipulagi fyrir Austfirði.
Fúsk stjórnsýslunnar kringum þennan iðnað er stórfurðulegt.
Í frétt RÚV segir um þetta mál:
… Fjarskiptastrengurinn FARICE-1 var tekinn í notkun fyrir 20 árum. Hann liggur frá Færeyjum inn í Seyðisfjörð og á land á Vestdalseyri. Hann liggur annars vegar frá Færeyjum til Íslands og hins vegar frá Færeyjum til Skotlands. …
Þorvarður Sveinsson framkvæmdastjóri Farice, sem sér um fjarskiptatengingar Íslands við umheiminn, segir að strengurinn sé mikilvægur fyrir Færeyjar sem reiði sig á tvo þriðju hluta hans. Þetta séu innviðir sem njóti sérstakrar verndar í fjarskiptalögum. Þar sé skilgreint helgunarsvæði og fiskiskipum sé bannað að varpa akkerum innan fjórðungs úr sjómílu beggja vegna við strenginn.
„Þetta hefur verið virt og meðal annars út af þessum lögum höfum við ekki lent í slitum á strengjum í sjó. Nú er nýr iðnaður að þróast mjög hratt, laxeldi í sjókvíum, og til marks um það hefur fjarskiptalögum ekki verið breytt til að vernda strengina fyrir þessum iðnaði. Það er, akkeri fiskikera í sjó, þau þurfa að vera undir sömu kvöðum og akkeri skipa. Við viljum ekki sjá akkeri sjókvía inni á helgunarsvæði strengjanna.“
Í umsögn Farice til Matvælastofnunar kemur fram að Farice hafi allt frá árinu 2020 komið athugasemdum sínum á framfæri við bæði Skipulagsstofnun og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. Það liggi fyrir að strengurinn verði mikilvægur burðarás í fjarskiptaöryggi Íslands næstu tíu árin.
Að mati Farice eru miklir almannahagsmunir í húfi enda er íslenskt samfélag gríðarlega háð öryggi í fjarskiptum við útlönd sem nær öll fara um þrjá fjarskiptasæstrengi Farice. Færeyskt samfélag er enn háðara virkni FARICE-1 strengsins þar sem tvær af þremur fjarskiptaleiðum Færeyja við útlönd fara um strenginn. Það er því varhugavert að tefla því öryggi í tvísýnu með því að staðsetja sjókví of nálægt sæstrengnum og eiga á hættu að valda tjóni á honum. (Úr umsögn Farice til MAST)
Þorvarður segist vongóður um að fjarskiptalögum verði breytt til þess að vernda fjarskiptasæstrengina. „Við höfum kallað eftir því að það sé farið varlega og ekki gefin heimild til þess að nýjar sjókvíar verði staðsettar þannig að akkeri þeirra geti farið inn á helgunarsvæði strengjanna.“ Það sé óheppilegt að sjókvíaeldi sé fyrirhugað nærri fjarskiptasæstrengjum á meðan fjarskiptalög séu óbreytt. …