„Að veiða og sleppa er aðeins einn kafli – mikilvægur þó – í sögunni af því hvernig stangveiðimönnum tókst með harðfylgi að snúa við þróun sem stefndi villtum íslenskum laxastofnum í mikla hættu,“ segir Ingólfur Ásgeirsson einn stofnenda Icelandic Wildlife Fund í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
„Með því að veiða og sleppa er hægt að sjá til þess að nægur lax verði eftir í ánum í lok veiðitíma til að styðja við góða hrygningu að hausti. Sjálfbærni stofnanna er því tryggð.
Ábyrgð okkar er mikil. Ísland er síðasta vígi Atlantshafslaxins. Honum hefur verið eytt víðast annars staðar, eða stofnarnir eiga mjög undir högg að sækja. Þar á meðal skerðir erfðablöndunin við eldislax mjög getu þeirra til að komast af í náttúrunni.“