Þetta er staðan í Noregi.
Við vekjum athygli lesenda á því að í umræðum hér í athugasemdakerfinu hafa talsmenn sjókvíaeldisiðnaðarins ítrekað haldið því fram að staða villtra laxastofna í Noregi sé sterk. Er það þó í fullkominni mótsögn við það sem norska Vísindaráðið um laxinn hefur sagt, en í ársskýrslum ráðsins kemur fram að sjókvíaeldi á laxi er stærsta manngerða ógnin við norskan villtan lax.
Ástandi villtra laxastofna er langverst við þann hluta strandlengju Noregs þar sem sjókvíaeldið er mest.Þetta eru svo sannarlega dapurlegir tímar.
Norska umhverfisstofnunin hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að til alvarlegrar skoðunar sé að loka laxveiðiám í 19 af 22 fylkjum landsins. Tekið er fram í yfirlýsingunni að lokun kunni að koma til innan skamms og þá með stuttum fyrirvara.
Ástæðan fyrir þessari yfirvofandi ákvörðun er fyrst og fremst vegna þess hversu fáir laxar eru að ganga í norsku árnar. Í fyrra var lélegasta ár í Noregi með tilliti til veiða á laxi, frá því að byrjað var að halda utan um tölfræði í norskum veiðiám og veiði í net í sjó. Árið í fyrra og tölurnar sem þá voru uppi á borðinu eru hátíð miðað við þá stöðu sem virðist vera uppi í ár.
…
Tekið er fram í tilkynningunni að þetta sér gert til að koma í veg fyrir algert hrun í norskum laxastofnun. Bent er á að ef heldur fram sem horfir í sumar verði hrygningarstofnar undir þeim mörkum sem nauðsynleg eru talin og það geti leitt af sér hrun í laxastofnum til framtíðar. Jafnframt er bent á að lokunin geti tekið gildi með stuttum fyrirvara.
Rune Jensen er í forsvari fyrir norsku samtökin SalmonCamera sem vinna að verndun laxins. Rune sagði í samtali við Sporðaköst að þetta væri grafalvarleg staða sem upp væri komin. „Það er verið að horfa til þess að mögulega loka laxveiðiám frá landamærunum við Svíþjóð í suðri og norður fyrir Þrændalög. Það hefur verið tekið fram að þetta geti gerst með stuttum fyrirvara. Við erum að tala um nokkur hundruð laxveiðiár. Það eru bara þrjú nyrstu fylkin sem hafa verið með eðlilega laxagengd það sem af er sumri,“ upplýsti Rune.
…
Þetta eru dramatískar tölur, Rune?
„Já. Þær eru það. Í norður Noregi sjáum við eðlilegar laxagöngur og þar er veiðin í sumum ám mjög góð. Ástandið er hins vegar alvarlegt í mið hluta landsins og alla leið til suður hluta Noregs. Við í SalmonCamera samtökunum styðjum þessa nálgun. Við teljum hins vegar þetta sé kannski full snemmt og teljum rétt að bíða og sjá hvað gerist á næsta stóra straumi, hvort að göngurnar séu möguleg seinar fyrir. Ég trúi því hins vegar að stjórnvöld séu líka að horfa til þeirra netaveiða á laxi sem stundaðar eru í fjörðum Noregs og eru heimilar. Stjórnunin á þeim veiðum er einungis sá tími sem heimilt er að vera með netin í sjó. Ekki er tekið tilliti til fjölda veiddra laxa eða slíkra hluta. Ég held að stjórnvöld vilji hafa vaðið fyrir neðan sig og koma í veg fyrir að umtalsverður hluti laxins verði veiddur áður en hann kemst upp í árnar.“
Rune segir að nú þegar hafi nokkrum ám verið lokað, eða tilkynnt um að þeim verði lokað fljótlega, óháð því hvað stjórnvöld gera í framhaldinu.
Veistu hvernig þetta verður gert, komi til lokunar á hluta af laxveiðiám eða landssvæðum?
„Við erum ekki að tala um hluta af Noregi. Þarna er verið að tala um allan Noreg nema nyrstu þrjú fylkin, Troms, Norland og Finnmörk.“
…
Þessi staða kemur upp í framhaldi af því að vísindaráð sem fjallar um laxinn í Noregi sendi frá sér skýrslu og stöðumat þann 17. þessa mánaðar. Í ráðinu sitja þrettán vísindamenn frá sjö stofnunum og háskólum í Noregi. Í kjölfar þeirrar umsagnar og skýrslu hafa allar viðvörunarbjöllur nú farið af stað í Noregi.
…
Árið 2016 skrifaði Rune grein í Morgunblaðið þar sem hann bað Íslendinga um að vera skynsama og varkára þegar kom að uppgangi sjókvíaeldis í íslenskum fjörðum. „Við vorum það svo sannarlega ekki hér í Noregi og það er vitað að sjókvíaeldi er stærsta ógnin við laxastofna.“
En Rune, gæti verið að laxinn sé svona seinn á ferðinni og að það rætist úr þessu?
„Við viljum svo gjarnan trúa því. Og við viljum trúa, með áherslu á viljum, að laxinn hafi dvalið lengur á fæðuslóð því skilyrði í hafinu hafi verið svo góð. Jafnvel bæti við sig ári og komi þá síðar en þetta vitum við ekki. Vorið hefur líka verið mjög sérstakt með miklum þurrkum og hita. Kannski hefur það áhrif, en við vitum það bara ekki. Við erum mjög áhyggjufull og óttumst það versta en vonum það besta. Það er bara svo mikið sem við vitum ekki þegar kemur að laxinum. Og einmitt þess vegna held ég að stjórnvöld séu að gera rétt í því að mögulega loka ánum tímabundið, þar til við vitum meira.“
Rune bendir á laxeldi í sjó þegar kemur að hnignun á laxastofnum. Hann segir þrjá þætti vega þar þyngst. Laxalúsin og erfðamengun eru þekktir og staðfestir áhættuþættir. Hins vegar nefnir Rune þriðja þáttinn sem hann segir að hafi fengið litla athygli fram til þessa. „Útbreiðsla alvarlegra sjúkdóma í villta fiskinn veldur okkur miklum áhyggjum. SalmonCamera hafa fjármagnað rannsóknir og rannsóknaráætlun frá árinu 2013 þar sem farið hefur fram rannsókn á hreistri, tálknum, hjarta og nýrum villtra laxa. Við höfum séð mjög ógnvekjandi niðurstöður úr þeim rannsóknum sem tengja villta laxinn við hættulega sjúkdóma sem hafa þrifist og verið vandamál í sjókvíaeldi. Sumar niðurstöður höfum við birt opinberlega í vísindatímaritum en annað hefur enn ekki verið birt.
„Þeim er skítsama“
Það er staðreynd að sjókvíaeldi í stórum stíl í fjörðum Noregs hefur leitt til mikillar fækkunar í laxastofnum. Hins vegar er ekki bara hægt í þessu tilviki að beina byssunni að eldisiðnaðinum. Það eru svæði í Noregi sem ekki búa við sjókvíaeldi og þar er laxinn heldur ekki að koma til baka. En það er alveg ljóst að sjókvíaeldið á stærstan þátt í að laxastofnar í Noregi hafa minnkað um 85% síðustu þrjátíu til fjörutíu ár.“Noregur hefur alþjóðlegar skuldbindingar varðandi tvær dýrategundir þegar kemur villtri náttúru. Það er villti laxinn og hreindýrin. Hér fer Rune á flug. „Ríkisstjórnin okkar getur ekki verndað villta laxinn. Þeim er í raun skítsama. Og þú mátt hafa það eftir mér. En þetta er ekki villti lax ríkisstjórnarinnar. Þetta er náttúran okkar og barnanna okkar og samkvæmt norsku stjórnarskránni þá eigum við rétt á heilbrigðri náttúru sem fóstrar fjölbreytileika. Stjórnmálamenn hafa talað fallega um laxinn en þegar kemur að aðgerðum þá er ekkert gert.“