Mótsagnirnar í þessum hvítþvotti Matvælastofnunar á Arctic Fish eru enn eitt dæmið um meðvirkni stofunarinnar með sjókvíaeldisiðnaðinum. Í þessari frétt á vef MAST er beinlínis sagt frá fjölmörgu mannlegu klúðri í starfseminni en samt er niðurstaða stofnunarinnar að „afföll hafi ekki átt sér stað vegna háttsemi rekstraraðila, heldur hafi ýmsir utanaðkomandi og samhangandi þættir orsakað þessi afföll.“
Þetta er í beinni mótsögn við það sem MAST nefnir þó meðal ástæðna: „hluti af fiskinum hafði verið handleikinn við flutninga og lúsaböðun í nóvember 2021. Þessir ytri þættir, samhliða minni afköstum hjartavöðvans í laxinum vegna krónískrar HSMI sýkingar og tálknabólgu gerðu laxinn sérstaklega viðkvæman fyrir streitu og hnjaski.“ Áður hafði komið fram að eldislaxinn hefði verið viðkvæmur vegna flutnings milli sjókvía fyrr á árinu.
Í frétt MAST er talað um að sláturgetan hér á landi hafi ekki annað verkefnunum. Hvað segir það um fyrirtækið, sem á eldislaxinn, að vera með meiri fisk í sjókvíum en raunhæft var að slátra? Áætlunargerðin er að minnsta kosti ekki gæfuleg.
MAST segir líka að sláturhúsið á Djúpavogi hafi verið í „fullri notkun vegna slátrunar á laxi úr Reyðarfirði,“ en nefnir ekki að sú slátrun hafi verið vegna blóðþorrasýkingar eldislaxinum í sjókvíunum fyrir austan.
Við þetta allt bætist svo að í tilkynningu norska móðurfélagi Arctic Fish til norsku kauphallarinnar kom fram að gríðarlegan dauða eldislaxanna mátti meðal annars rekja til „meðhöndlunar“ á fiskinum.
MAST tekur aldrei stöðu með eldisdýrunum, umhverfinu eða villta lífríkinu. Þetta er til skammar.