Yngvi Óttarsson skrifar harðorða grein á Vísi:

“Á síðasta ári samþykkti Alþingi uppfærð lög um fiskeldi. Í þeim lögum framseldi Alþingi illu heilli veigamiklar ákvarðanir um fyrirkomulag sjókvíaeldis til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem átti að útfæra nánar í reglugerð. Í núgildandi reglugerð um fiskeldi er kveðið á um lágmarksfjarlægð sjókvíaeldis frá ósum laxveiðiáa. Þar er lagt bann við sjókvíaeldi innan 5 km frá laxveiðiá þar sem að jafnaði veiðast fleiri en 100 laxar og innan 15 km ef veiðin er meiri en 500 laxar.

Í fyrirliggjandi drögum að nýrri reglugerð frá atvinnuvegaráðuneytinu er lagt til að fella þessi fjarlægðarmörk niður og þar með megi staðsetja sjókvíaeldi allt upp undir ósa laxveiðiáa til dæmis í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði með tilheyrandi stórhættu fyrir villta stofna laxfiska.

Í skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins frá 2014 segir meðal annars um bann við laxeldi í opnum sjókvíum í námunda við laxveiðiár: „Með því að heimila eldi laxfiska ekki á ákveðnum svæðum í ákveðinni fjarlægð frá stærstu laxveiðiám er verið að draga úr líkum á því að eldisfiskur gangi upp í verðmætustu árnar“. Laxalús er einnig líkleg til að strádrepa sjógönguseiði sem ganga út nærri opnum sjókvíum.

Hvernig stendur á að ráðuneytið snýr nú við blaðinu og telur ekki lengur þörf á að halda sjókvíaeldi í lágmarksfjarlægð frá ósum laxveiðiáa. Hvað hefur breyst?

Jú, það vill svo til að tveir nýir starfsmenn hafa í millitíðinni verið ráðnir til ráðuneytisins til að sjá um fiskeldismál. Það er annars vegar „sérfræðingur“ sem kom beint úr starfi hjá fyrirtæki Kjartans Ólafssonar stjórnarformanns Arnarlax, og hins vegar tengdadóttir Einars K. Guðfinnssonar, stjórnarformanns Landssambands fiskeldisstöðva frá 2016. Skyldu þau hafa setið við lyklaborðið þegar hin nýju reglugerðardrög voru samin? Það er því ekki bara að Alþingi Íslendinga hafi framselt ákvörðunarvaldið til ráðherra, heldur hefur útfærslan væntanlega verið í höndum aðila tengdum sjókvíaeldisiðnaðinum. Er nema von að spurt sé hvort Íslands sé orðið að Namibíu norðursins.”