Eins og við höfum sagt frá þá hefur Arctic Sea Farm orðið uppvíst að því að brjóta gegn starfsleyfi sínu með ýmsum hætti í starfsemi sinni í Dýrafirði á Vestfjörðum. Það er þó ekki allt og sumt því fyrirtækið er einnig brotlegt í sjókvíaeldi sínu í Tálknafirði og Patreksfirði eins og kemur fram í nýjustu eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar þar sem stendur: „Rekstraraðili notast við koparlitaðar nætur við eldi sitt í Patreksfirði og Tálknafirði án heimildar.“
Þetta er grafalvarlegt mál því kopar er eitraður málmur sem er mjög skeinuhættur sjávarlífverum. Kopar eyðist ekki í umhverfinu þó eldissvæði séu hvíld, heldur hleðst upp og verður hættulegri og hættulegri lífríkinu.
Við hjá IWF höfum sent Umhverfsstofnun fyrirspurn um hver viðurlögin eru fyrir svo einbeittum brotum gegn starfsleyfi, eins og Arctic Sea Farm hefur gert sig sekt um í fleiri en einum firði fyrir vestan.
Arctic Sea Farm er að stóru leyti í eigu félags sem skráð er á Kýpur, sem er þekkt aflandssvæði.
Myndin sem hér fylgir er skjáskot af tilvísun í nýrri grein sem birtist á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar.