„Daginn eftir hinn pr-drifna fögnuð voru húskarlarnir greinilega loksins búnir að stauta sig almennilega í gegnum skýrsluna og sjá að þar átti allt við rök að styðjast. Engu virtist vera hægt að svara efnislega. Voru nú góð ráð dýr og ekkert eftir í stöðunni nema að fara í manninn. Ríkisendurskoðanda! Nú skyldi hann rúinn trausti.
Fyrir utan ógeðfellda aðferðina, þótti mér sérstaklega sorglegt að sjá fólk sem situr á Alþingi taka þátt í dylgjum í garð ríkisendurskoðanda með því að halda því fram að hann „hefði mikla hagsmuni af umhverfi laxveiði“.
Byrjum á því að taka þetta bókstaflega. Hverjir eiga þessir meintu hagsmunir að vera? Nú vill svo til að þær upplýsingar eru aðgengilegar í opinberum gögnum. Þar kemur fram að ríkisendurskoðandi og eiginkona hans eiga í jörð sem um rennur á. Í þessari á hafa að meðaltali veiðst 46 laxar á ári undanfarin ár. Veiðileyfin eru ekki seld á almennum markaði og reyndar er þetta vatnsfall nánast óþekkt meðal áhugafólks um laxveiði. Fjárhagslegu hagsmunirnir eru sem sagt engir.
…hitt segir svo sína sögu að þau sem hafa dylgjað um meinta hagsmuni ríkisendurskoðanda virðast ekki átta sig á mótsögninni sem felst í þessum ásökunum. Ef ríkisendurskoðandi hefur raunverulega hagsmuni, eins og húskarlarnir vilja meina, þá felst í því viðurkenning af þeirra hálfu á því að iðnaðurinn er skaðlegur villta laxastofninum. Hingað til hefur þetta fólk gert lítið úr þeirri staðreynd.“
Inga Lind Karlsdóttir setur viðbrögðin við skýrslu ríkisendurskoðunar í samhengi. Skyldulestur!