Mikilvægt er að fólk átti sig sem fyrst á því að hugmynd Róberts Guðfinnssonar og Árna Helgasonar verktaka á Ólafsfirði um sjókvíaeldi í Eyjafirði og fjörðum Tröllaskaga er fullkomlega óraunhæf.

Líklega liggur eitthvað annað að baki en raunverulegur áhugi á að ráðast í þetta verkefni. Það er engin glóra í því af landfræðilegum og líffræðilegum ástæðum.

Verkefnið hvílir á því að hægt sé að nota ófrjóan eldislax. Eftir umfangsmiklar tilraunir í Noregi, sem lauk í fyrra, kom í ljós að hærra hlutfall af ófrjóum eldislaxi drepst í sjókvíunum en af hefðbundnum eldislaxi (þar sem afföllin eru hrikaleg) því ófrjór lax er viðkvæmari fyrir vetrarsárum og sjúkdómum.

Ófrjór eldislax þarf líka meira fóður en er samt léttari og af lakari gæðum en venjulegur eldislax við slátrun.

Um þetta má lesa í greininni sem hér fylgir af vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar.

Þar er vitnað í rannsókn á vegum stofnunarinnar á ófrjóum lax sem er með þrjá litninga (triploid) og þar með ófrjór:

„The susceptibility of triploid fish to health problems was demonstrated by higher prevalence of winter ulcers and mortality during the winter for triploid compared to diploids, especially when the fish were transferred to sea that Autumn. Overall, the triploids were also inferior in their economic prospect for the farmer, compared to diploids they had lower product quality at harvest, required more feed per kg produced, and had a higher cumulative mortality by the time of harvest despite being harvested earlier and at lower weight.“

Norðmenn hafa því eðlilega hætt við allar pælingar um að nota ófrjóan eldislax í sjókvíunum. Ekki er í sjónmáli að það breytist á næstu tíu árum, að minnsta kosti.

Skoðum svo firðina sem þeir félagar, Róbert og Árni, vilja nota undir sjókvíaeldið:

Siglufjörður
Of grunnur fyrir sjókvíar nema farið sé út í fjarðarmynnið, á svæði sem er algjörlega berskjaldað fyrir norðanáhlaupum.

Héðinsfjörður
Norðanáhlaupin ekkert skárri en við mynni Siglufjarðar. Það er ekki tilviljun að fjörðurinn fór í eyði fyrir mörgum árum.

Sjókvíar mega illa við aftakaveðri. Að staðsetja sjókvíar með ófrjóum eldislaxi sem er sérstaklega viðkvæmur fyrir vetrarsárum þar sem þær eru alls óvarðar fyrir norðanbálinu væri einbeittur brotvilji á velferð eldislaxanna.

Eyjafjörður
Stærsta sveitarfélagið við Eyjafjörð, smábátasjómenn og ferðaþjónustufyrirtæki hafa kallað eftir friðun hans og lífríkisins gagnvart sjókvíaeldi.

Mögulega á þessi dellu hugmynd Róberts og Árna að verða einhvers konar skiptimynt til að fá fólk til að fallast á einhverja aðra hugmynd gegn því að hætti verði við þessi áform.

Við höfum séð þennan leik áður. Það lætur enginn gabbast nema sá sem vill láta gabba sig.