Þessir frábæru matreiðslumeistarar eru að leggja enn frekar sitt af mörkum við hjálpa okkur að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Í hópnum eru margir af frægustu kokkum þjóðarinnar, Michelinstjörnuhafar, þrautreyndir keppendur úr Bocuse d’Or, sem er hin sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu, og kokkalandsliðsfólk. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa tekið sér stöðu með umhverfinu og lífríkinu með því að bjóða ekki upp á lax úr opnu sjókvíaeldi.

Takk!

Fjallað er um málið á vísi.is:

Hópur þekktra matreiðslumeistara hafa tekið höndum saman og hvetja til sniðgöngu á laxi úr sjókvíaeldi. Þeir munu í dag láta til sín taka víða á samfélagsmiðlum með skilaboð sín – að þeir bjóði ekki upp á eldislax úr sjókvíum á veitingastöðum sínum. Og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

… Skilaboðin eru hluti af herferð sem Íslenski náttúruverndarsjóðurinn og (IWF) og Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) standa fyrir. Bakhjarl átaksins er stórfyrirtækið Patagonia. Tilgangurinn sé sá að hvetja neytendur og veitingahús til að taka sjókvíaeldislax af matseðlinum.

„Við erum að opna nýja vefsíðu þar sem farið er lið fyrir lið yfir skaðleg áhrif sjókvíaeldisiðnaðarins á umhverfið og lífríkið,“ segir Jón Kaldal talsmaður IWF í samtali við Vísi.

Að sögn Jóns hafa reyndar fjölmörg veitingahús þegar stigið það skref og fyrir alllöngu.

„Matreiðslumeistarar þaðan eru núna að leggja enn frekar sitt af mörkum við hjálpa okkur að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Í hópnum eru margir af frægustu kokkum þjóðarinnar, Michelinstjörnuhafar, þrautreyndir keppendur úr Bocuse d’Or, sem er hin sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu, og kokkalandsliðsfólk. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa tekið sér stöðu með umhverfinu og lífríkinu með því að bjóða ekki upp á lax úr opnu sjókvíaeldi.“

Jón segir þá sem að átakinu standi hvetja fólk til að svipast um á veitingahúsum og í verslunum eftir bláum gluggamiða með skilaboðum um að þar sé aðeins boðið upp á lax úr sjálfbæru landeldi. Eða hreinlega spyrja hvaðan laxinn kemur áður en matur er pantaður.