Það kemur okkur ekkert á óvart að forsvarsmenn HSÍ vilji ekki svara símtölum til að ræða þetta furðulega mál.
Sjálfsmörkin verða ekki verri en þetta.
Samkomulagið felur það í sér að frá og með HM kvenna, sem hefst í næstu viku í Noregi, mun Arnarlax hafa sitt vörumerki á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta. „Við vitum að handbolti er stór hluti af íslensku íþróttalífi og við gætum ekki verið stoltari en að fá að taka þátt í þeirri vegferð sem HSÍ er á. Áfram Ísland!“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax í tilkynningu á vefsíðu HSÍ og hrollur fór um margan manninn.
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir HSÍ þegar við skrifum undir samstarfssamninga við nýja bakhjarla. Flestir bakhjarlar HSÍ í dag hafa verið í bakvarðasveit okkar í yfir áratugi, það er von okkar hjá HSÍ að samstarfið við Arnarlax verði farsælt og ánægjulegt“ er haft eftir Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ við sama tækifæri.
… Vísir ræddi meðal annars við Þórey Rósu Stefánsdóttur landsliðsfyrirliða sem er stödd úti í Noregi á æfingamóti. Hún vildi vísa öllum fyrirspurnum til Róberts Geirs Gíslasonar framkvæmdastjóra eða til Guðmundar formanns.
„Þetta var tilkynnt eftir að við vorum komnar út og við höfum tekið þá ákvörðun að einbeita okkur hundrað prósent að því verkefni sem er fyrir höndum. Við erum að komast í fyrsta skipti á HM í 12 ár og ætlum ekki að láta nein fjárhagsmál hjá HSÍ spilla því fyrir okkur,“ sagði Þórey Rósa. …
Þegar grein Bubba Morthens, „Nú eru þetta strákarnir þeirra“ var nefnd í þessu sambandi, að það hlyti að vera hiti á leikmönnum, svaraði Þórey Rósa hlæjandi: „Já, geta þá ekki bara strákarnir tekið afstöðu til þessa, fyrst Bubbi nefnir bara þá. Hvað segir Aron?“
Aron sem Þórey Rósa vísar til er Aron Pálmarsson, fyrirliði karlalandsliðsins, og leikmaður FH. Aron svarar ekki síma.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla sagðist í samtali við Vísi ráðlegast að stjórn HSÍ svaraði fyrir þetta. Hann vissi ekki hvernig hann sjálfur yrði merktur, sem þjálfari en ef einhver hiti kæmi á leikmenn liðsins vegna þessa, þá muni hann rísa upp.
„Það er ágætt að halda því til haga að þeir eru að spila frítt fyrir landsliðið og brenna fyrir það.“
Róbert Geir framkvæmdastjóri svarar engum símum, ekki frekar en Guðmundur. Áðurnefnd meint yfirlýsing frá HSÍ mun vera væntanleg, eins og áður segir. Greinlegt að talsvert uppnám ríkir á skrifstofunni vegna málsins en Heimildin greindi frá því fyrr í dag að Davíð Lúther Sigurðsson, stjórnarmaður í HSÍ, hafi sagt af sér stjórnarmennsku vegna téðs samings. Davíð Lúther var yfir markaðs- og kynningarmálum en fékk ekki að vita af samningum við Arnarlax fyrr en greint var frá honum í fjölmiðlum.