Þetta er hin furðulega staða þegar kemur að opinberu eftirliti með sjókvíaeldi á Íslandi: Starfsfólk MAST situr á skrifstofunni á Selfossi og tekur við upplýsingum frá fyrirtækjunum sem það á að hafa eftirlit með og veit ekkert hvort þær eru réttar eða rangar.

Arnarlax gaf í fyrstu upp að í sjókvíum félagsins fyrir vestan væru 100 tonn af dauðum laxi. Á sama tíma var fyrirtækið búið að stefna á svæðið fjölda skipa, íslenskum og útlendum, með mörg þúsund tonna burðargetu.
Þarna fór augljóslega ekki saman hljóð og mynd.

Þegar gengið var á MAST með upplýsingar um hvað væri eiginlega í gangi fengust þær upplýsingar að dauði laxinn væri nær 500 tonnum. Hafði talan þá fimmfaldast á nokkrum dögum. Vandamálið er hins vegar að þær upplýsingar koma líka frá Arnarlaxi. MAST hefur ekki hugmynd um hver staðan er í raun og veru. Það liggur í augum uppi að við þetta ástand er ekki unað.

Við hjá IWF viljum vekja sérstaka athygli á þeim orðum úr svari MAST til Stundarinnar að tjónið hafi að mestu orðið í janúar: „„Með tjóni er átt við nuddskaðann á roði fisksins. Það getur tekið allt frá 5-6 dögum og upp í 3-4 vikur að nuddskaði þróist upp í það að verða að opnu sári sem leiðir fiskinn að lokum til dauða.“

Í svörum MAST til IWF þann 21. janúar, við fyrirspurn um ástand sjókvía og eldisdýra við Ísland eftir vonda tíð, sagði: „Skv. 19. gr. b. laga um fiskeldi nr. 71/2008 skal Matvælastofnun birta opinberlega upplýsingar m.a. um strok, óeðlileg afföll eldisdýra og slæma meðferð á eldisfiski. Þar sem engar slíkar tilkynningar hafa farið frá Matvælastofnun má gagnálykta að strok eldisfiska hafi ekki átt sér, né að ástandi fisksins hafi verið hætta búinn.“

Það var og.

Sjá frétt Stundarinnar.