„Auðvitað eigum við að taka höndum saman um eldisaðferðir sem eru betri fyrir umhverfið, lífríkið og eldisdýrin sjálf. Annað er stórkostleg tímaskekkja,“ skrifar Jón Kaldal, félagi í The Icelandic Wildlife Fund, í þessari grein sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is í dag.
Jón segir meðal annars:
„Kjarni málsins er að tæknin, sem fyrirtæki Gunnars og önnur sjókvíaeldisfyrirtæki nota, er hættuleg náttúru og lífríki. Sjókvíar eru bara netapokar í sjó. Þetta er svo frumstæð og ófullkomin tækni að það sleppur alltaf fiskur úr kvíunum. Spurningin er bara hvenær og í hve miklu magni.
Mengunin frá þeim er líka hroðaleg. Skólpið streymir beint frá þeim í sjóinn. Í hverri kví eru um 200 þúsund fiskar. Á botninum fyrir neðan þær myndast fjöll af rotnandi fóðurafgöngum og saur.
Og það er meira. Aðbúnaður eldisdýranna er hræðilegur í sjókvíunum eins og við höfum því miður hrikaleg ný dæmi um úr íslensku eldi, bæði fyrir vestan og austan. Í rekstraráætlunum fiskeldisfyrirtækja er beinlínis gert ráð fyrir að 20 prósent eldisdýranna lifi ekki af aðbúnaðinn í kvíunum. Það er grátlegur vitnisburður um þennan iðnað.
Það þarf að fara með fiskeldi upp á land. …“